Vertu karlmaður í Fríhöfninni
Guðmundur Steinarsson, knattspyrnukappi úr Keflavík opnaði nýja karlaverslun í Fríhöfninni
Guðmundur Steinarsson, knattspyrnukappi úr Keflavík og Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Fríhafnarinnar opnuðu formlega nýja verslun, BE A MAN í Fríhöfninni 21. des. Guðmundur var fulltrúi íslenskra karlmanna við opnunina en nýja verslunin er sérstaklega hugsuð fyrir þá.
Nýja verslunin er á brottfararverslunarsvæði Fríhafnarinnar, og ber nafnið BE A MAN. Í fyrsta sinn verður öllum snyrtivörum fyrir karla komið fyrir á einum stað og um leið og þeir velja sér nýjan ilm, gott krem eða rakvörur geta þeir bragðað á úrvals viskíi eða fyrirtaks koníaki. Þetta nýja fyrirkomulag er til þess ætlað að auka þjónustuna enn meira með því að auðvelda leitina af vörum sem eru sérhannaðar fyrir karlmenn og sem vekja áhuga þeirra, segir í frétt frá Fríhöfninni.
Þessi skemmtilega nýjung sem býðst viðskiptavinum Fríhafnarinnar í lok ársins ætti að spara tíma og fyrirhöfn þar sem karlmenn og konur geta gengið að herrasnyrtivörum og öðrum spennandi vörum á einum og sama stað í staðinn fyrir að þræða alla verslunina til að finna rétta ilmvatnið og kremið fyrir hann og jafnvel bragðgott og girnilegt áfengi. Sérvalið áfengi svo sem koníak, viskí, eðalromm, eðalgin og aðrir sterkir eðaldrykkir verða kynntir hverju sinni og framsettir í Led lýsta kúpla sem staðsettir verða á vegg, einnig verða skemmtileg auglýsingamyndbönd sýnd í LCD skjái til að búa til réttu stemninguna. Ermahnappar og aðrir litlir fylgihlutir verða einnig á boðstólnum. Sæbjörg Guðjónsdóttir hannaði svæðið BE A MAN í náinni samvinnu við stjórnendur Fríhafnarinnar en hlýlegur viðurinn og svartur litur eru ríkjandi í versluninni. ÍAV sá um smíði og uppsetningu innréttinga. Frábært úrval af snyrtivörum fyrir konur verða á sínum hefðbundna stað.
Farþegar um flugstöðina hafa aldrei verið fleiri en í ár og búist er við enn meiri aukningu árið 2013. Því er þessi nýjung kærkomin og starfsmenn Fríhafnarinnar verða í því hlutverki að fræða og upplýsa viðskiptavinina um þær vörur sem bjóðast hverju sinni.
Sjáið fleiri myndir í myndagalleríi VF hér.
Stjórnarformaður með starfsmönnum ÍAV þjónustu sem sáu um framkvæmdirnar og hönnuði.
Vökvi af ýmsum gerðum til að heilla karlpeninginn þegar hann gerir innkaupin.