Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Veitingastaðurinn Karma lokar
Hildur og Sóley brosmildar þrátt fyrir óvænt endalok Karma. VF-mynd/pket.
Miðvikudagur 19. desember 2012 kl. 10:56

Veitingastaðurinn Karma lokar

Eigendurnir sorgmæddir yfir óvæntum endalokum fyrsta hollustustaðarins á Suðurnesjum.


Karma Keflavík, fyrsti hollustumatsölustaðurinn á Suðurnesjum, sem opnaði í mars 2011 hefur verið lokað. Ástæðan mun vera sú að eigendur staðarins náðu ekki samkomulagi við Íslandsbanka sem eignaðist húsakynnin sem Karma leigði.

„Framtíðin er óljós og skýrist vonandi á nýju ári,“ stóð m.a. á blaði á hurð veitingastaðarins eftir lokun hans. Þær Sóley Birgisdóttir og Hildur Kristjánsdóttir, eigendur Karma segjast vonsviknar yfir þessum óvæntu endalokum staðarins en sögðu að þetta væru ekki endilega endalok framleiðslu Karma. Það muni þó koma í ljós á nýju ári. Meðal möguleika sem þær væru að skoða væri dreifing á vinsælum réttum af Karma í verslanir eða opnun „take away“ veitingastaðar.

„Ég byrjaði að vinna í þessu hverfi þegar ég var tólf ára og lengst af hefur verið mikil atvinnustarfsemi hérna á þessari húsalengju í Grófinni en nú er það að heyra sögunni til. Lítið eða nær ekkert er í gangi, ansi sorglegt,“ sagði Sóley en faðir hennar, Birgir Guðnason byggði upp á mörgum árum veglega atvinnustarfsemi á svæðinu sem nú er öll hætt.

Þegar VF leit við voru þær að hreinsa út af staðnum eigur sínar sem fylgdu Karma. Staðurinn var orðinn vinsæll og ljóst að margir munu sakna hans en á Karma var boðið upp á hollan skyndibita og næringarlega rétt samasettar máltíðir í samræmi við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar, eins og fram kom í auglýsingum staðarins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024