Veislu annríki hjá Menu
jólamatur og útskriftarveislur og skötuveisla á föstudag
Starfsmenn Menu veisluþjónustu á Ásbrú hafa átt annríkt að undanförnu. Í gær voru þeir að úbúa nokkrar útskriftarveislur í gömlu húsakynnum Offisera-klúbbs Varnarliðsins en þar er Menu með aðstöðu. Fyrrverandi yfirmaður klúbbsins er einn starfsmanna Menu.
Mikill tími hefur farið í að gera jólamat í desember í jólahlaðborð en Menu er einnig með mötuneytisþjónustu fyrir marga aðila eins og t.d. eldri borgara á Nesvöllum í Njarðvík. „Svo verðum við með öfluga skötuveislu á Nesvöllum á föstudaginn 21. des. en þá ætlum við að taka forskot á Þorláksmessuna,“ sagði Ásbjörn Pálsson, eigandi Menu við VF.
Ellefu manns starfa hjá Menu og í þeim hópi er m.a. Reynir Guðjónsson, matreiðslumaður en svo skemmtilega vill til að hann starfaði í þessu húsi, gamla Yfirmannaklúbbnum, í marga áratugi þegar hann vann hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar byrjaði hann sem matreiðslumaður og í gegnum tíðina kokkaði hann margar stórsteikur, hamborgara og fleira góðgæti að hætti Varnarliðsmanna. Í Officera klúbbnum var m.a. hægt að fá bjór þegar hann var ekki fáanlegur hér á landi. Reynir vann sig upp úr kokknum hjá Kananum upp í yfirmannsstöðu yfir þremur veitingastöðum Varnarliðsins. Reynir segir það skemmtilega tilviljun að hann skuli vera kominn á gamla staðinn sinn og í kokkagallann sem hann byrjaði í þegar hann hóf störf í klúbbnum.