Vegan kleinuhringir og súrdeigsbrauð meðal nýjunga í 25 ára Hérastubbi
Hérastubbs-feðgin í Suðurnesjamagasíni vikunnar.
„Það er búið að vera brjálað að gera í Covid og hér hafa stundum myndast raðir langt út úr bakaríinu. Svo höfum við líka verið að gera ýmsar nýjungar sem hafa orðið mjög vinsælar, meðal annars vegan kleinuhringir og fleira vegan bakkelsi,“ segir Sigurður Enoksson, bakari og eigandi Hérastubbs bakarísins í Grindavík.
Siggi Bakari er ekki einn í bakarínu en hann stofnaði það með föður sínum fyrir aldarfjórðungi og segist hafa lent í tveimur niðursveiflum á þessum árum en staðið þær af sér. Grindvíkingar hafa verið góðir viðskiptavinir og Siggi og bakarafjölskyldan baka gott bakkelsi. Dóttir hans, Hrafnhildur Kroknes, útskrifaðist sem bakari árið 2014 og síðan sem konditor 2017 og súkkulaðimeistari eftir framhaldsnám í Danmörku 2019. Hún byrjaði snemma að venja komur sínar í Hérastubb og fór fljótlega að afgreiða ung skólastelpa. Bakarinn blundaði greinilega í blóðinu á stelpunni og hún er núna á fullu alla daga í bakarínu með föður sínum og tveimur bræðrum. Sannkölluð bakarafjölskylda.
Hrafnhildur hefur verið dugleg að mæta með nýjungar og hún segir það skemmtilegt. Faðir hennar tekur sannarlega undir það og er ánægður með stúlkuna sem hefur til að mynda verið dugleg að baka súrdeigsbrauð sem eru vinsæl um þessar mundir. Þá hefur hún líka verið dugleg að baka ýmislegt bakkelsi í vegan en þá eru ekki notaðar mjólkurvörur eða afurðir úr dýraríkinu.
„Vegan verslun í Reykjavík hafði samband og við sendum þeim reglulega vegan bakkelsi frá okkur sem hefur fengið skemmtilegar móttökur. Þá höfum verið dugleg að baka og gera ýmislegt í veislur, pítubrauðin okkar hafa til dæmis verið mjög vinsæl sem og veislutertur sem Hrafnhildur hefur sérhæft sig svolítið í. Hún er orðin hámenntuð stúlkan og kann ýmislegt,“ segir Sigurður Hérastubbur glaður með dótturina og bætir því við að bakaríið eigi orðið viðskipavini langt út fyrir Grindavík. Suðurnesjamenn og fólk frá höfuðborgarsvæðin lætur sig ekki muna að renna í Grindavík eftir góðu bakkelsi.
Suðurnesjamagasín heimsótti þau feðgin í Hérastubb og ræddi við þau um bakaralífið, nýjungar og fleira skemmtilegt. Þátturinn er frumsýndur á Hringbraut, vf.is og Kapalvæðinu kl. 20.30 á fimmtudagskvöld.