Vaxtarþættir og húðvörur frá ORF Líftækni verðlaunuð
- hljóta verðlaun sem líftæknivörur ársins 2013 í Evrópu
Evrópsku Líftæknisamtökin (European Biotechnology Thematic Network Association, EBTNA) eru stærstu samtök sérfræðinga í líftæknigeiranum í Evrópu. Þau hafa verið starfrækt í sextán ár með það að markmiði að stuðla að framgangi líftækni í Evrópu með skipulagningu rannsóknaverkefna, miðlun þekkingar og ráðgjöf.
Verðlaunin voru veitt til að vekja athygli á athyglisverðum vörum frá litlum eða meðalstórum evrópskum líftæknifyrirtækjum. Bæði ISOkine vaxtarþættir sem ORF Líftækni framleiðir fyrir læknisfræðilegar rannsóknir og EGF Húðvörur dótturfyrirtækisins Sif Cosmetics voru verðlaunuð fyrir einstakt framlag til til evrópsks líftækniiðnaðar.
ORF Líftækni er vaxandi fyrirtæki á sviði líftækni sem er leiðandi í framleiðslu hágæða sérvirkra próteina fyrir læknisrannsóknir, húðvörur og líftækniiðnað. Með þróun og nýtingu á einstakri framleiðsluaðferð sinni, sameindaræktun í byggi, stefnir ORF Líftækni að enn frekari uppbyggingu sem hátæknifyrirtæki í fremstu röð á alþjóðlegum markaði. Hjá ORF Líftækni starfa um 40 manns.