Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 22. nóvember 2001 kl. 08:45

Vantar einhvern til að klippa Varnarliðið!

Nú stendur yfir leit að rekstraðilum til að sjá um rakarastofuna og hárgreiðslu- og snyrtistofuna í lítilli verslunarmiðstöð á varnarsvæðinu, í sama húsi og skyndibitastaðurinn Wendy´s og Lava Java kaffihúsið sem býður einungis upp á kaffi frá Kaffitári auk gleraugnaverslunar, keilusals o.fl.Helga Sigrún Harðardóttir, atvinnuráðgjafi Reykjanesbæjar er þessa dagana að kynna þetta tækifæri fyrir fagfólki á svæðinu en að hennar sögn hefur fólk utan svæðis verið duglegra að ná þeim samningum sem Varnarliðið hefur boðið.
„Þau komu að máli við mig og báðu mig að hjálpa þeim að finna einhverja héðan til að kynna möguleikana hér á varnarsvæðinu. Hár- og snyrtistofan hefur lítið sem ekkert verið opin síðustu vikur en þar eru fjölmörg tækifæri fyrir duglegan aðila að rífa þann rekstur upp. Þá er alltaf nóg að gera á rakarastofunni líka. Forval vegna þessa útboðs var auglýst í lok október. Nánari upplýsingar má fá hjá Flo Marino í síma 425-2061 ([email protected]) en gerður yrði verktakasamningur við þann sem kemur til með að taka að sér reksturinn.“
Rakarastofan sérhæfir sig aðallega í svokölluðum „hermanna-klippingum“ auk almennra herraklippinga. Hár- og snyrtistofan sér síðan um klippingu, litun, permanent o.s.frv. auk þess sem boðið hefur verið upp á hand- og fótsnyrtingu, vaxmeðferðir, naglaásetningu og aðra almenna snyrtiþjónustu.
„Til stendur á næstunni að endurinnrétta og taka í gegn það húsnæði sem þessar stofur eru í. Allir innanstokksmunir, stólar, vaskar, speglar o.þ.h. fylgja með en sá sem tekur að sér reksturinn útvegar sjálfur áhöld og tæki sem notuð eru“, segir Helga Sigrún að lokum en nú er rétti tíminn fyrir duglegt og hæfileikaríkt fólk að kynna sér málið og hafa samband við Helgu Sigrúnu í síma 421-6700 eða netfangið: [email protected] og fá frekari upplýsingar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024