Úr Þórsmörk í friðsældina á Ásbrú
Eftir að hafa verið staðarhaldarar í Þórsmörk í þrjú ár og hótelhaldarar tvö önnur ár á Vík í Mýrdal bauðst þeim Ragnheiði Hauksdóttur og Brynjólfi Sigurbjörnssyni að taka við nýju hosteli sem opnaði nú síðsumars á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Við Lindarbraut á Ásbrú hefur verið opnað hostel undir nafninu „Start hostel“. Ragnheiður segir í samtali við Víkurfréttir að henni hafi strax mætt afslappað andrúmsloft þegar hún kom á Ásbrú og þar væri mikil friðsæld. Eftir að hafa starfað í farfuglahreyfingunni í tvo áratugi þá hafi henni strax litist vel á að taka að sér rekstrarstjórn á þessu nýja hosteli.
Start hostel er smekklega innréttað og vel búið. „Þetta er hágæða gisting á lágu verði,“ segir Ragnheiður í samtali við blaðamann og bætir því við að Start hostel sé eitt alflottasta hostel landsins og þó víðar væri leitað. Boðið er upp á gistingu fyrir rúmlega 50 manns í húsinu í uppábúnum rúmum. Húsnæðið er tvær hæðir og hefur efri hæðin öll verið endurnýjuð og tekin í gegn fyrir starfsemina. Annað eins gistirými er á jarðhæð og verður það tekið í gegn síðar og þá geta rúmlega 100 manns gist í húsinu.
Auk gistingar eru í húsinu aðstaða fyrir gesti til að elda og góður matsalur með fullbúnu eldhúsi. Þar er í boði morgunverður en salinn getur fólk leigt undir samkomur eins og erfidrykkjur eða fermingar, svo eitthvað sé nefnt.
Ragnheiður segir í samtali við blaðið að næstu vikur fari í að kynna nýja hostelið og þá aðstöðu sem þar sé í boði. Þannig vilji hostel-haldarar bjóða tónlistarfólki að koma og halda tónlistarviðburði í húsinu og þá sé þar einnig veggpláss fyrir myndlist og ljósmyndir.
Þeir sem vilja kynna sér Start hostel betur er bent á www.starthostel.is og eins má bóka gistingu í síma 420 6050.