Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

UPS fær þrjá metanknúna Sprinter sendibíla
Þriðjudagur 24. apríl 2012 kl. 12:03

UPS fær þrjá metanknúna Sprinter sendibíla


Hraðsendingarfyrirtækið UPS hefur fengið afhenta þrjá Mercedes-Benz Sprinter sendibíla sem eru allir metanknúnir. Bílarnir eru notaðir til útkeyrslu á hraðsendingum og almennum flugsendingum frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.

,,Við erum mjög ánægð að fá þessa umhverfismildu og eyðslugrönnu bíla í okkar þjónustu. Við viljum metanvæða bílaflotann okkar og þetta er fyrsta skrefið í þeirri viðleitni. Auk þess að stuðla að minni útblæstri þá reiknum við með að árlegur sparnaður af rekstri bílanna sé umtalsverður. Við erum að horfa á hreinan eldsneytissparnaði auk þess sem við spörum dýrmætar gjaldeyristekjur með því að nota einvörðungu íslenskt eldsneyti,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Express ehf, sem er umboðsaðili fyrir UPS á Íslandi. Sigþór segir að metanbílarnir beri auk þess lægri vörugjöld í innkaupum.

Sprinter bílarnir þrír eru sérpantaðir fyrir UPS og eru í sérstökum brúnum lit fyrirtækisins. Bílarnir eru sérútbúnir til dreifingarþjónustu og auðvelda þannig alla vinnu ökumanns og umgengi hans um bílinn. Þannig er t.d.innangengt úr bílstjórasæti aftur í bílinn og þá er búið að taka farþegasætin úr bílunum og setja í staðinn sérútbúna bakka fyrir sendingar.

Þorsteinn Ólafsson í atvinnubíladeild Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, segir að metanbílar séu góður kostur fyrir íslensk fyrirtæki og þeir hafi komið vel út í rekstri og viðhaldi. „Askja býður upp á margar gerðir Mercedes-Benz atvinnubíla sem knúnar eru metani, m.a. Sprinter sem fólksflutningabíl, sendibíl og pallbíl sem hægt er að sníða að rekstri hvers og eins,“ segir Þorsteinn ennfremur.

Önnur fyrirtæki sem metanvætt hafa bílaflota sinn með Sprinter metanbílum eru m.a. Hópferðabílar Sævars og Glerborg á Suðurnesjum, Selecta, Vífilfell, Póstdreifing, auk þess sem Sendibílar Reykjavíkur hafa fengið sinn fyrsta bíl afhentan. Þar að auki hefur Ölgerðin pantað tvo slíka bíla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024