Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Uppboðið einstakt á heimsvísu
Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri RSF.
Mánudagur 22. febrúar 2016 kl. 07:31

Uppboðið einstakt á heimsvísu

- RSF tengir 12 fiskmarkaði á 26 stöðum í eitt uppboðsnet

Reiknistofa fiskmarkaða  hf. [RSF] er hlutafélag í eigu þriggja fiskmarkaða og er reiknistofa og tölvuþjónusta fyrir íslensku fiskmarkaðina. Reiknistofa fiskmarkaða tengir 12 fiskmarkaði á 26 stöðum í eitt uppboðsnet og heldur fiskuppboð þar sem tvö til þrjúhundruð kaupendur kaupa fisk í fjarskiptum. Reiknistofa fiskmarkaða heldur einnig utan um peningaflæðið á milli útgerða, kaupenda, fiskmarkaða, og hins opinbera. Það má því segja að hún sé hjartað í uppboðskerfinu þar sem um fimmti hver bolfiskur sem veiddur er við Ísland er boðinn upp.

Suðurnesjamenn eru frumkvöðlar í rekstri fiskmarkaða hér á landi og ákváðu strax í upphafi að fara nýjar leiðir í uppboði á fiski hjá Fiskmarkaði Suðurnesja. Áður þekktist aðeins að bjóða upp fisk inni á gólfi en hugmyndir Fiskmarkaðs Suðurnesja voru að bjóða upp fisk spriklandi ferskan á sjó þar sem sjómenn tilkynntu veiddan afla með fjarskiptum. Það gekk eftir og hugmyndin var þróuð áfram. Þegar uppboðsferlið var tölvuvætt varð Reiknistofa fiskmarkaða hf. til.



Að jafnaði er verið að bjóða upp um 400 tonn á dag hjá 26 fiskmörkuðum allt í kringum landið sem fá fiskinn frá allt að 57 löndunarhöfnum. Uppboð fara fram alla virka daga en einnig á laugardögum yfir vetrartímann. Árið 2014 voru seld 103.000 tonn af fiski á mörkuðunum og veltan nam 30,6 milljörðum króna, sem er samanlögð sala á fiski og þjónustu auk virðisaukaskatts. Í fyrra voru milljarðarnir orðnir 32 en starfsmenn RSF eru í þremur og hálfu stöðugildi þannig að veltan er næstum 10 milljarðar á mann.

Kaupendur tengdir internetinu

Eyjólfur Þór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri RSF, segir uppboðið vera einstakt á heimsvísu því hvergi annars staðar sé boðinn upp fiskur á sama tíma af landinu öllu. Þá eru seljendur yfirleitt á sjó og jafnvel er fiskurinn óveiddur eða um borð í bátnum þegar hann er seldur. Bátarnir tilkynna aflann til fiskmarkaðanna sem skrá hann inn í sölukerfið sem reiknistofan á. Eyjólfur segir að skráningu á þeim afla sem er til sölu á markaði sé lokið á hádegi og uppboð hefjist kl. 13:00. Þá sitja kaupendur á sinni skrifstofu tengdir internetinu og bjóði í þann fisk sem þeir vilja kaupa og uppboðið gangi hratt fyrir sig. Uppboðið fer þannig fram að klukka fer í gang við hvert uppboð. Hún byrjar hátt og telur niður þannig að sá sem fyrstur ýtir á takkann fær uppboðið. Á sama tíma geta seljendur fylgst með uppboðinu í rauntíma og séð á hvaða verði fiskurinn seldist.



Allir geta keypt gegn ábyrgð eða tryggingu

Uppboðskerfið hefur verið í þróun frá árinu 2003 og gengið vel frá fyrsta degi. Eyjólfur segir engar hömlur vera á uppboðinu og hverjir geti keypt. Hins vegar verði kaupendur að vera með bankaábyrgð eða hafa lagt tryggingu inn á Reiknistofu fiskmarkaða því ekki er hægt að kaupa út á kredit. Með þessu er sjómanninum eða útgerðarmanninum alltaf tryggð greiðsla fyrir aflann. Uppgjör fyrir uppboð fer fram á föstudegi viku til hálfum mánuði eftir uppboð. Eyjólfur segist halda að nokkur sátt sé um uppboðsferlið hjá flestum og einnig það að með tilkomu fiskmarkaða hafi orðið til meiri verðmæti en áður. Fiskur sem menn hirtu ekki áður er orðinn töluverð verðmæti í dag. Þá hafi gæðamál tekið mikið stökk með tilkomu fiskmarkaða. Eyjólfur segir að stöðug vinna eigi sér stað í að bæta gæði þjónustu, tækninnar og gæði fisksins. Fiskmarkaðir hafi leitt til bættrar meðferðar á afla um borð. Fiskur sem hefur ekki verið ísaður eða kældur rétt falli í verði á uppboðum.

Eyjólfur er hokinn af reynslu þegar kemur að starfsemi fiskmarkaða. Hann byrjaði hjá Fiskmarkaði Suðurnesja árið 1988. Fiskmarkaður Suðurnesja stofnaði svo Reiknistofu fiskmarkaða árið 1992 og Eyjólfur fylgdi þangað yfir og hefur verið þar síðan. Frá þeim tíma sem fiskmarkaðirnir urðu til þá er fiskvinnsla orðin að hátækniiðnaði og fiskmarkaðir hjálpa verkendum að útvega nákvæmlega það hráefni sem þarf til vinnslunnar.

„Það er allt jákvætt við fiskmarkaði og hagkvæmast fyrir alla að selja sem mest í gegnum markaði,“ segir Eyjólfur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024