Uppboð á fiski veltir 32 milljörðum
- nýjasti þáttur SVF heimsækir FMS og RSF
Reiknistofa fiskmarkaða [RSF] hefur aðsetur í Reykjanesbæ en fyrirtækið velti um 32 milljörðum króna á síðasta ári í viðskiptum með fisk. Reiknistofa fiskmarkaða hf. heldur utanum öll uppboð fiskmarkaða og sér um greiðslumiðlun milli viðskiptaaðila. Að jafnaði er verið að bjóða upp um 400 tonn á dag hjá 26 fiskmörkuðum allt í kringum landið sem fá fiskinn frá allt að 57 löndunarhöfnum.
Fiskmarkaður Suðurnesja [FMS] er stór á meðal á Íslandi og með starfsstöðvar í Grindavík, Hafnarfirði, Ísafirði, Höfn og Sandgerði þar sem aðalskrifstofa markaðarins er.
Í Sjónvarpi Víkurfrétta í kvöld skoðum við þessi tvö fyrirtæki, förum á uppboð og fylgjumst með fiskinum koma að landi. Þátturinn er á dagskrá ÍNN kl. 21:30 í kvöld, fimmtudagskvöld. Þátturinn verður einnig aðgengilegur á vef Víkurfrétta síðdegis í háskerpu.