Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Undir vatnsboga eftir fyrsta flug frá Basel
Slökkvilið Keflavíkurflugvallar sprautaði vatni yfir vélina þegar hún renndi upp að flugstöðinni. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 3. apríl 2014 kl. 09:24

Undir vatnsboga eftir fyrsta flug frá Basel

easyJet, sem er eitt stærsta flugfélag í Evrópu, hóf í gær beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Basel í Sviss. Flogið verður til Basel tvisvar sinnum í viku, á miðvikudögum og laugardögum, fram í lok september en lægsta fargjaldið er í kringum 6.295 kr., aðra leið með sköttum. Til skoðunar er að flugleiðin verði starfrækt allt árið um kring. Í fyrstu vélinni frá Basel komu 136 manns, sem er tæplega 90% sætanýting, en með vélinni út fóru töluvert færri farþegar. Það er ekki óvenjulegt í fyrsta flugi en svo virðist sem Íslendingar eigi margir enn eftir að átta sig á þeim flugleiðum sem easyJet býður nú upp á frá landinu.

Basel er fimmta flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til Lundúna, Manchester, Edinborgar og Bristol allt árið um kring. Félagið er þriðja umsvifamesta flugfélagið hér á landi og flýgur nú daglega á milli Íslands og Lundúna. Basel Mulhouse-Freiburg flugvöllurinn í Basel er einn af annasömustu flugvöllum í mið-Evrópu vegna nálægðar hans við vinsæl ferðamannasvæði í Frakklandi, Þýsklandi og Ítalíu og mikilvægar viðskiptamiðstöðvar í Sviss.

Basel er þriðja stærsta borgin í Sviss. Í sjálfri borginni búa tæplega 170 þúsund manns en alls um 850 þúsund manns séu nágrannabyggðir taldar með. Basel er falleg miðaldaborg sem liggur við landamærin að Frakklandi og Þýskalandi, á svæði sem kallað er Þrílandahornið (þ. Dreiländereck), og er borgin klofin í tvennt af Rínarfljóti, sem rennur í gegnum miðbæinn. Í borginni er að finna fjölmörg söfn og markaði auk spennandi matsölustaða. Aðeins 35 km eru frá Basel til Mulhouse í Frakklandi en einnig er stutt til Freiburg í Þýskalandi (70 km), Zürich í Sviss (85 km) og til Zug í Sviss (100 km) þar sem mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa höfuðstöðvar sínar, m.a. lyfjafyrirtækið Actavis. Einnig eru aðeins um 140 km til Strassborgar í Frakklandi.

Í tilefni af jómfrúarfluginu var fyrstu farþegunum sem komu með vélinni hingað til lands boðið að taka þátt í leik þar sem tveir heppnir unnu jeppaferð fyrir sig og ferðafélaga sína um Gullna hringinn og snjósleðaferð á Langjökul.

Þá sprautaði slökkvilið Keflavíkurflugvallar vatni yfir vélina þegar hún renndi upp að flugstöðinni en hefð er fyrir slíkum heiðursverði þegar um er að ræða jómfrúarflug.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024