Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Umhverfisvænasti sandblástur landsins í boði á Vallarheiði
Föstudagur 14. nóvember 2008 kl. 09:49

Umhverfisvænasti sandblástur landsins í boði á Vallarheiði


Fullkomnasta og umhverfisvænasta aðstaða á Íslandi til sandblásturs hefur öðlast líf að nýju eftir að Vélsmiðjan Völlur ehf. tók til starfa í húsnæði að Bogatröð 1. Vélsmiðjan Völlur er nýtt fyrirtæki í Reykjanesbæ en það hefur einnig rekstur í Hafnarfirði og hjá fyrirtækinu starfa sex menn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á Vallarheiði er fyrirtækið að koma sér fyrir í rúmgóðu húsnæði sem á tímum Varnarliðsins var kallað Boddy shop. Þar er fullkominn 14 metra langur sprautuklefi og einnig uppsettur 14 metra langur sandblástursklefi. Þeir eru báðir af fullkomnustu gerð með umhverfis- og öryggismál að leiðarljósi. Þannig er sandblástursklefinn tengdur hreinsibúnaði sem endurvinnur blásturssandinn.

Í starfsstöð vélsmiðjunnar á Vallarheiði hefur aðallega verið unnið að sandblásturs- og sprautuverkefnum, en í Hafnarfirði einnig almennri rennismíði og járnsmíði. Sigurður Mar Stefánsson, framkvæmdastjóri, segir að fyrirtækið þjónusti fiskiskip og hitaveitur en fyrirtækið byggir á 50 ára reynslu í hitaveitubúnaði. Fyrirtækið er í viðgerðum á spilum og háþrýstikerfum auk þess að framleiða djúpdælubúnað og fleira í þeim dúr. Með opnun starfsstöðvar á Vallarheiði sér fyrirtækið frekari breikkun á starfsemi fyrirtækisins, s.s. með uppsetningu á ryðfrírri smiðju og öðru sem hefði samlegðaráhrif og styrkti starfsemina.

Næg verkefni hafa verið undanfarið fyrir bæði sandblásturs- og sprautuklefana. Fyrirtækið hefur verið að vinna að viðhaldi á stórum sorpgámum, sem hafa gengið í gegnum hefðbundið viðhald í smiðju, fara síðan í sandblástur og eru að lokum málaðir í réttum litum í sprautuklefanum. Þá eru sandblástursverkefnin fjölbreytt og hlutir í ýmsum stærðum fara í gegnum fyrirtækið, allt frá stórum gámum eða bílum og niður í smæstu hluti. Þá tekur Vélsmiðjan Völlur m.a. að sér að sandblása álfelgur, svo eitthvað sé nefnt.

Þessar vikurnar er unnið að því að innrétta rennisverkstæðið í húsnæðinu á Vallarheiði. Hún verður rúmgóð og mun notast við öflugan krana á brautum í lofti hússins. Renniverkstæðið mun taka formlega til starfa þegar umbreytingu rafmagns í húsinu hefur verið lokið en nú er unnið að því að koma á rafmagni eftir evrópskum stöðlum á iðnaðarsvæðinu á Vallarheiði.

Texti og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson