Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Tveir nýir hluthafar í Hitaveitunni
Sunnudagur 28. mars 2004 kl. 11:34

Tveir nýir hluthafar í Hitaveitunni

Tvö ný sveitarfélög munu á næstunni eignast hlut í Hitaveitu Suðurnesja hf. og það þriðja eykur hlut sinn. Eru þetta sveitarfélögin sem eftir stóðu í eigendahópi Jarðlindar hf. sem lét bora háhitaholu á Trölladyngjusvæðinu en Hitaveitan eignast fyrirtækið nú að fullu.
Fjögur sveitarfélög stofnuðu Jarðlind hf. á sínum tíma ásamt Hitaveitu Suðurnesja og Jarðborunum hf. Félagið lét bora háhitaholu í rannsóknarskyni á Trölladyngjusvæðinu 2001.

Hitaveitan hefur smám saman verið að eignast stærri og stærri hlut í fyrirtækinu með því að leggja því til aukið hlutafé. Á síðasta ári óskaði Garðabær eftir að selja sinn hlut og keypti Hitaveitan hann og átti þá 82,5% hlutabréfanna. Nú hefur verið ákveðið að Hitaveitan eignist fyrirtækið að fullu og sameini það rekstri sínum. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitunnar, segir að menn hafi gefist upp á því að hafa sérstakt félag um þetta verkefni. Hlutur Hitaveitunnar hafi sífellt verið að aukast. Þá standi menn frammi fyrir því að ekki fáist lengur endurgreiddur virðisaukaskattur vegna borana og rannsókna hjá þessu félagi vegna þess að það hafi enn sem komið er engar tekjur.

Gengið hefur verið frá kaupum á hlut Jarðborana hf. Hafnarfjarðarbær, Kópavogsbær og Bessastaðahreppur fá hins vegar um hálfs prósents eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja, hvert sveitarfélag fyrir sig, fyrir hlutabréfin í Jarðlind. Hafnarfjarðarbær átti fyrir hlut í fyrirtækinu en Kópavogsbær og Bessastaðahreppur eru nýir eignaraðilar. Á aðalfundinum í fyrradag var samþykkt hlutafjáraukning til að hrinda þessum áformum í framkvæmd, en frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024