Tvær rótgrónar verslanir opnaðar á Keflavíkurflugvelli
Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar og hönnunarverslunin Epal hafa verið opnaðar á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða aðra opnun svokallaðra pop-up verslana sem starfræktar verða á flugvellinum í tiltekinn tíma en í lok júní var veitingastaðurinn Maika‘i og verslunin Jens opnuð og hefur rekstur þeirra gengið vel.
„Það er virkilega gaman að sjá þessi tvö íslensku fyrirtæki opna útibú á Keflavíkurflugvelli. Kormákur & Skjöldur og Epal eru skemmtilegar verslanir með eftirsóknarverðar gjafavörur fyrir bæði Íslendinga og erlenda ferðamenn og passa því virkilega vel í verslanaflóruna á flugvellinum. Okkar markmið er að gera Keflavíkurflugvöll að enn skemmtilegri viðkomustað, að farþegar njóti flugstöðvarinnar vel síðustu klukkustundirnar fyrir flug og geti keypt áhugaverðar vörur á góðu verði,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslana og og veitinga hjá Isavia.
Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar
Herrafataverzlun Kormáks & Skjaldar er vel þekkt enda hefur hún verið starfandi í rúman aldarfjórðung. Það voru þeir Kormákur Geirharðsson og Skjöldur Sigurjónsson sem stofnuðu verslunina sem hefur m.a. verið til húsa í Kjörgarði á Laugavegi frá árinu 2006. Vöruúrvalið tekur að nokkru leyti mið af breskri klæðahefð – áhersla lögð á þykk og góð ullarefni og fatnað sem hentar vel til útivistar og frístunda á norðlægum slóðum.
EPAL
Húsgagnaverslunin EPAL var opnuð fyrir tæpum 50 árum þegar Eyjólfur Pálsson kom heim frá Kaupmannahöfn að loknu námi í húsgagnahönnun. EPAL hefur alla tíð stutt íslenska hönnuði og lagt sig fram við að hjálpa þeim að koma verkum sínum á framfæri og í framleiðslu auk þess sem starfsemi fyrirtækisins hefur aukið skilning og áhuga Íslendinga á hönnun almennt.