Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Traust starfsfólk og víðsýni í viðskiptum
Föstudagur 29. nóvember 2013 kl. 08:00

Traust starfsfólk og víðsýni í viðskiptum

Veiðarfæraþjónustan laðar að sér erlenda viðskiptavini:

Það hljóp aldeilis á snærið hjá Veiðarfæraþjónustunni ehf í Grindavík þegar asískt útgerðarfyrirtæki lagði inn hjá þeim risapöntun á smokkfisktrolli. Fyrirtækið hefur haldið öllum sínum starfsmönnum þrátt fyrir að kreppt hafi að enda hugsa menn þar út fyrir boxið.


Viðskiptin undu upp á sig

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta kom til vegna þess að aðilar frá Asíu voru að veiða við strendur Norður-Afríku og fóru svo til Falklandseyja að veiða smokkfisk. Þá vantaði veiðarfæri til þess og við komumst saman niður á lausn og sendum þeim fyrsta trollið í september,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri. Hann segir trollið hafa reynst svo vel að hálfu ári síðar hefðu sömu aðilar pantað helmingi stærra troll sem núna er í vinnslu hjá fyrirtækinu. Hörður segir fleiri erlendar útgerðir hafa pantað samskonar troll í kjölfarið sem nýtist vel fyrir fleiri tegundir fiska. Þessi viðskipti hefði undið upp á sig og orðið að meiru en búist var við. „Við höfum verið að eltast við að ná einhverju svona í útflutning til að styrkja stoðirnar hérna. Einnig hafa Rússar verið að kaupa af okkur nokkur troll til grálúðuveiða við Grænland. Fyrir nokkrum árum seldum við lítil troll til Maine í Ameríku. Það týnist alltaf eitthvað til,“ segir Hörður bjartsýnn og bætir við að það þurfi að hugsa út fyrir boxið til leita að boðlegum samstarfsvettvangi. „Það verður að fara út fyrir það sem maður þekkir og láta slag standa, þó með ákveðið öryggi á bak við sig. Þýðir ekkert að hlaupa út í eitthvað og sitja svo eftir með skuldir og ógreidda reikninga,“ segir hann kíminn.


Sömu starfsmenn frá upphafi

Veiðarfæraþjónustan hefur ekki verið laus við niðursveiflur í kjölfar hrunsins en Hörður segir að þá hafi ekkert annað verið í stöðunni en að leita út fyrir landsteinana að verkefnum. Samhliða því hafi verið reynt að spara eins og hægt var. „Við vorum um tíma sterkir í sölu á dragnótum en í því varð töluverður samdráttur. Þorbjörn og slík stórfyrirtæki héldu þó sínum viðskiptum. Ég náði að halda öllum mínum mannskap með því að hagræða og leita að verkefnum.“ Fyrirtækið var stofnað árið 2002 á eldri grunni sem var innan Þorbjarnar áður og flestir starfsmenn hans í dag, sjö manns, hafa verið hjá honum síðan þá. „Starfsmannavelta er mjög lítil og ég er ánægður með það því langan tíma tekur að þjálfa menn í að geta tekið að sér fjölbreytt verkefni og ekki er hægt að treysta hverjum sem er.“