Töluverðar breytingar framundan
Suðurnesjamaðurinn Einar Lárus Ragnarsson hefur tekið að sér verslunarstjórn í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ en hann hefur síðastliðin tólf ár starfað við innkaup hjá fyrirtækinu í höfuðstöðvum þess í Reykjavík. Hann hefur starfað hjá Húsasmiðjunni á sautjánda ár og átti meðal annars þátt í opnun verslunarinnar á Smiðjuvöllum í nóvember árið 1996 þar sem hann vann í rúmt ár áður en hann hélt aftur í bæinn til starfa í innkaupadeildinni.
Einar var þá aftur fluttur suður og hefur keyrt á milli síðastliðin 14 ár en hann er fæddur og uppalinn á Suðurnesjum, bjó fyrstu árin í Njarðvík en flutti síðan til Keflavíkur.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Einar Lárus að ýmsar breytingar standi nú yfir í versluninni og má þar helst nefna að aðkoma verktaka og iðnaðarmanna hefur tekið á sig nýja mynd en verið er að færa pípulagnadeild úr verslunarrýminu nær timbursölunni og öll aðstaða fyrir pípara bætt til hins betra. Ráðinn hefur verið annar fagmaður í deildina til að bæta þjónustuna enn frekar.
Blómaval verður stækkað og vöruúrval einnig aukið þar, en nýr starfsmaður Blómavals er Sólveig Óladóttir sem m.a. hefur rekið blómaverslun í Grindavík og er öllum hnútum kunnug í þeim geira. „Við væntum mikils af henni,“ segir Einar Lárus, enda hefur hún nú þegar breytt ásýnd Blómavals til hins betra og bætt í flóruna með fleiri gjafavörum og fallegum blómaskreytingum að hans mati.
Aðrar breytingar eru einnig í farvatninu, en í þær verður farið eftir áramót enda stórir mánuðir framundan og eins og þekkt er byrja jólavörurnar þegar að streyma í búðina um miðjan október og lítill tími til stórra breytinga síðustu mánuði ársins. „Það má segja að breytingarnar í byrjun næsta árs munu gjörbreyta ásýnd verslunarinnar og vonandi verður vel tekið í þær af viðskiptavinum,“ segir verslunarstjórinn Einar.
Stefnt er að því að ljúka þeim breytingum sem eru í gangi núna um miðjan október og fljótlega eftir það verður boðið upp á hið margrómaða Konukvöld, og einnig í kjölfarið Kjaraklúbbskvöld. „Við vonumst til að jafn góð þátttaka verði þau kvöld eins og undanfarin ár, en einnig munum við bjóða iðnaðarmönnum til okkar eina kvöldstund í október til að kynna þeim breytingarnar og fara yfir málin,“ segir Einar og brosir út í annað.
Skynjar jákvæðni á svæðinu
„Ég hef tröllatrú á að hér fari að birta til á svæðinu og uppgangur fari að hefjast og er reyndar ekki í vafa að svo verði innan fárra mánaða. Við ætlum að vera vel undirbúin undir það og eiga dyggan þátt í því að Suðurnesjamenn þurfi ekki að leita út fyrir svæðið eftir vörum hvort sem það eru byggingavörur, verkfæri, heimilistæki eða blóm og gjafavörur til að lífga upp á tilveruna,“ segir Einar að lokum.
Nýr starfsmaður Blómavals er Sólveig Óladóttir sem m.a. hefur rekið blómaverslun í Grindavík og er öllum hnútum kunnug í þeim geira.