Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Tíu milljarða króna stækkun Reykjanesvirkjunar á lokastigi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 4. október 2022 kl. 12:31

Tíu milljarða króna stækkun Reykjanesvirkjunar á lokastigi

Skapar 30 ný megavött. Vel á annað hundrað manns hafa starfað við framkvæmdirnar í nærri tvö ár. Næstu framkvæmdir verða uppfærsla á orkuverinu í Svartsengi sem skapa ný tuttugu og fimm megavött. Virkar viðbragðsáætlanir vegna eldgosa. Innviðir ekki taldir í hættu.

„Það er gaman að segja frá því að þetta verkefni hefur gengið mjög vel og er á áætlun, eins og við lögðum upp með. Þetta hefur ekki verið einfaldur tími í heimsfaraldri. Svo hefur stríðið í Úkraínu haft áhrif á virðiskeðjur heimsins en samt sem áður er allt komið sem við þurfum, allar framkvæmdir hafa gengið og áætlanir og kostnaðaráætlun staðist,“ segir Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku en framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar eru vel á veg komnar. Vel á annað hundrað manns hafa starfað við framkvæmdirnar frá því í ársbyrjun 2020.

„Við erum mjög stolt af þessu verkefni og núna erum við að byrja prófanir á helstu hlutum í verkefninu og reiknum með að setja virkjunina í gang undir lok ársins og ná fullri framleiðslu á fyrsta ársfjórðungi á næsta ári.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ef þú kannski rifjar upp með okkur helstu kostnaðartölur. Hvað hafa margir starfað við þessar framkvæmdir og hvað er þetta mikil stækkun?

„Þetta er 30 MW stækkun og það er gaman að segja frá því að það er í raun og veru að fullu verið að nýta betur þann varma við virkjun á Reykjanesi í fyrsta áfanga. Núna erum við að nýta varmann betur, það eru engar nýjar holur, ekkert nýtt rask annað þessu samfara. Kostnaðurinn hefur verið rétt rúmir tíu milljarðar, var áætlaður það í upphafi og við stefnum í það. Það hafa verið þarna 150 manns þegar mest er og núna eru um 120 starfsmenn með öllum verktökum og sérfræðingum sem eru við prófanir. Þannig að allt hefur þetta gengið mjög vel og verið haldið afskaplega vel utan um þetta af teyminu hérna í fyrirtækinu – þannig að við erum mjög ánægð með okkur.“

Hvað með Reykjanesið? Þið hafið verið með tilraunaboranir þar í gegnum tíðina. Er eitthvað nýtt að frétta af því?

„Djúpborunarverkefninu lauk fyrir nokkrum árum síðan og síðustu skýrslu var skilað fyrir tveimur, þremur árum síðan. Það skilaði ýmsum góðum upplýsingum fyrir okkur og við þekkjum okkar kerfi betur fyrir bragðið. Holan sjálf hins vegar hefur ekki ennþá náð fullum afköstum þannig að það hefur orðið einhver bilun í sjálfri fóðringunni sem stuðlar að því en við fengum mjög mikið af upplýsingum og þekkjum okkar kerfi betur  – þannig að þetta var mjög verðmætt verkefni.“

Reykjanesvirkjun til hægri, Stolt Seafarm fiskeldið fyrir aftan hana. Til vinstri má sjá húsnæði tveggja fiskþurrkunarstöðva, Haustaks og Háteigs. Gunnuhver og Reykjanesviti sjást einnig vel á myndinni og annað „blátt lón“. VF-mynd: OZZO

Nýjar holur á Reykjanesi

Sérðu fleiri holur fyrir þér á svæðinu við Reykjanesvirkjun?

„Ég reikna með að við förum í tvær nýjar holur í upphafi næsta árs. Við erum að skoða hvað við getum breikkað svæðið, sjá í raun og veru hvernig við getum náð sem bestri nýtingu úr því. Þetta er allt saman mikilvægt til að skilja auðlindina betur og til að afla meiri gufu ef mögulegt er.“

Þurfið þið að sækja ykkur ný leyfi til að gera þessa hluti?

„Öll þau leyfi liggja fyrir. Við höfum fengið leyfi fyrir nýjum borteig, sem er suður af virkjuninni, og ætlum vonandi að fara í það í byrjun næsta árs.“

Gæti þessi hola búið til nokkur auka megavött?

„Við vonum það, þess vegna er farið í þetta. Ef ekki þá mun hún nýtast sem niðurdælingarhola, eftir að búið er að dæla þá reynum við að koma sem mestu frá okkur aftur.“

Hvernig er staðan á orkumarkaðinum í dag? Við vorum að tala við bílasala sem sagði okkur að 80% af pöntuðum bílum séu rafmagnsbílar. Svo við vitnum í eldri viðtöl þá sagði forveri þinn fyrir fimm árum síðan að ný orka verði ekki til í snúrunum. Hann hafði vissar áhyggjur af því og að það þyrfti að virkja meira. Hvernig er staðan í dag?

„Ég held að það hafi sýnt sig vel síðasta vetur að við Íslendingar höfum ekki verið nógu duglegir að virkja undanfarinn áratug. Hér var orkuskortur, bræðslurnar um allt land voru að vinna á fullu og þurftu að brenna olíu og við vorum mjög vel í sveit sett hvað það varðar gagnvart okkar viðskiptavinum og þurftum ekki að skerða neinn. Við erum nú þegar komin með sölu fyrir þessi 30 megavött sem við erum að fá úr Reykjanesvirkjun og þú nefndir bíla. Hver nýr rafmagnsbíll notar eins og 100 fermetra íbúð af rafmagni, þannig að þessi bylting í rafvæðingu bíla þarf fleiri megavött og auðvitað finnst mér að við eigum líka að einbeita okkur að betri nýtingu og betri nýtni og það er akkúrat það sem við erum að gera á Reykjanesi, við erum að nýta varmann betur og það er einmitt tækifæri til þess í Svartsengi líka, að nýta varmann betur og framleiða meira rafmagn þannig. En vissulega er eftirspurnar aukningin mikil en hún er ekki bara í bílum, það er orkukreppa í Evrópu í dag. Það er gífurleg eftirspurn eftir orku frá okkur Íslendingum í alls konar framleiðslu núna, allt öðruvísi verkefni en áður. Verkefni tengd matvælaframleiðslu, eldsneytisframleiðslu og kannski minni verkefni. Þetta eru tækifæri sem við höfum til að fara í, þetta eru líka verkefni sem gætu stutt við innanlandsmarkað og jafnvel til útflutnings. Við sjáum fullt af tækifærum í þessu.“

Sjáið þið tækifæri í því að selja orku til útlanda?

„Já, við sjáum það. Við Íslendingar gerum það í formi áls í dag og við seljum Norðuráli rafmagn en flytjum orkuna út í formi áls. Við sjáum tækifæri til þess að framleiða rafeldsneyti sem gæti nýst hér innanlands en líka til útflutnings.“

Hvað með frekari möguleika á meiri orku á Reykjanesi, á öðrum svæðum? Við erum að spjalla við þig hér í orkuverinu í Svartsengi, sem er gamalt orkuver. Þú hefur sagt að það séu líka tækifæri í Svartsengi til að uppfæra virkjunina tæknilega séð.

„Vissulega. Svartsengi er að verða fimmtíu ára gömul virkjun og við köllum hana hjartað í okkar starfsemi. Bara með því að taka út eldri virkjanir hér, orkuver fjögur og þrjú, og setja nýja túrbínu í staðinn ættum við að geta fengið 25 auka megavött, bara með betri nýtingu. Þegar við ljúkum Reykjanesvirkjun reiknum við með að fara strax í það verkefni. Það er annað sem við höfum verið að gera, við höfum verið að styrkja auðlindateymi fyrirtækisins og við erum orðin mun sterkari í að gera líkön fyrir svæðið okkar. Herma hvernig svæðin bregðast við, skiljum auðlindirnar betur og ætlum þar af leiðandi að nýta orkulindirnar betur. Svo eru svæði í kringum okkur, eins og Krýsuvík, sem er spennandi að fara í, sérstaklega í hitun húsa. Höfuðborgarsvæðið mun þurfa meira heitt vatn til lengri tíma og það er svæði sem ég held að við hljótum að horfa til.“

Hver nýr rafmagnsbíll notar eins og 100 fermetra íbúð af rafmagni, þannig að þessi bylting í rafvæðingu bíla þarf fleiri megavött...

Sjáið þið sem sagt möguleika á Krýsuvíkursvæðinu, vera með holu þar?

„Við höfum borað tvær rannsóknarholur í Trölladyngju. Við höfum áhuga á að fara í rannsóknarboranir þar og sjá hvað er í Krýsuvíkinni. Þar telja menn að sé mjög stórt jarðhitasvæði, eitthvað það stærsta í kringum okkur, og það er mjög nálægt höfuðborgarsvæðinu þannig að við teljum að þá sé mjög góður staður til byrja í einhverjum áföngum.“

Eruð þið með einhverjar tölur í ykkar rannsóknum? Sjáið þið fyrir ykkur einhvern fjölda megavatta?

„Það hefur verið talað um að Krýsuvíkursvæðið geti verið allt að 400 megavatta svæði – en við erum ekki að hugsa svo stórt í bili. Við teljum að það gæti verið gott að byrja þarna á einhverjum 50 megavöttum og ef að rannsóknarboranir sýna að það standi undir því, það þarf alltaf að bora fyrst til að kanna hvað maður getur fengið upp úr svæðinu, þá er kannski hægt að fara í framkvæmdir þarna eftir fimm ár eða eitthvað svoleiðis.“

Viðbragðsáætlanir í lagi

Hvað með eldgos í Fagradalsfjalli þarna í nágrenninu við ykkur?

„Þetta var náttúrulega tímabil jarðskjálfta og jarðhræringa sem allir á svæðinu fundu hressilega fyrir og Grindvíkingar hvað mest. Líka hér í höfuðstöðvum HS Orku í Svartsengi, okkar starfsfólk og vaktmenn sem eru allan sólarhringinn – hér hristist allt og skalf og urðu smávægilegar skemmdir á ýmsum hlutum en ekkert alvarlegt. Það verður að segjast eins og er að þegar gosið kom upp, og það kom upp á góðum stað, þá hurfu þessar jarðhræringar og það leið öllum betur vitandi að gosið var á góðum stað og enginn í hættu. Samfara jarðhræringunum urðu einhverjar smávægilegar skemmdir en það alvarlegasta var þegar vatnslögnin til Grindavíkur gaf sig um verslunarmannahelgina í sumar. Það var alvarlegasta bilunin sem við lentum í og við þurftum að gera við hana í snatri.“

Í ljósi þessara atburða, tvö eldgos, það er verið að tala um að þau verði fleiri í framtíðinni. Hvað er þetta starfssvæði HS Orku í mikilli hættu?

„Við erum náttúrulega með viðbragðsáætlanir, bæði skrifaðar og ítrekað yfirfarnar, miðað við mismunandi sviðsmyndir. Við förum reglulega í gegnum það, höfum æfingar. Við höfum unnið náið með Almannavörnum, sem hafa staðið sig mjög vel og hafa í raun og veru tengt okkur og Landsnet og önnur orkufyrirtæki mjög vel. Það er samstarfsvettvangur á þeim vettvangi til að afhenda krítískar vörur eins og rafmagn og heitt og kalt vatn. Þannig að við höfum í raun og veru ekkert annað gert nema hafa okkar viðbragðsáætlanir í lagi, vita hvað við þurfum að gera miðað við mismunandi sviðsmyndir og vera bara undirbúin. Tryggja öryggi fólks í öllum tilfellum.“

Eru mannvirki í Svartsengi komin í hættu?

„Það sem ég get fyrst og fremst sagt er að maður fagnar því hversu nákvæmlega vísindamenn geta spáð fyrir um hvar gos kemur upp, hvernig við getum fylgst með þessu í dag. Út frá því gátum við vitað að öllum líkindum að þetta kæmi annars staðar og ekki hér. Vissulega sitjum við á ungu hrauni og höfum farið í mikla uppbyggingu í gegnum áranna rás hér á ungu hrauni en við teljum, eins og núna, að vísindamennirnir okkar gætu spáð fyrir um það ef við værum í hættu þannig að við getum yfirgefið mannvirki og þess háttar – en eins og staðan er þá höfum við ekki metið það svo að mannvirkin væru í mikilli hættu.“

Þannig að við erum ekki að tala um að vatn og rafmagn fyrir Suðurnesin séu í hættu?

„Það ætti ekki að vera. Vissulega væri hægt að tryggja ýmislegt betur, hér er t.d. bara ein hitaveita á svæðinu, það er möguleiki hugsanlega að byggja aðra hitaveitu einhversstaðar í tengslum við Reykjanesvirkjun og vera þá með tvöfalt kerfi sem næstum ekkert sveitarfélag gerir. En við þurfum kannski að hugsa til þess í samvinnu við stjórnvöld og almannavarnayfirvöld. Eins með háspennulínur inn á svæðið, það þarf að tryggja að hér sé alltaf öryggi og jafnvel kallar þetta á að Suðurnesjalínu 2 sé flýtt, ef eitthvað er. Vissulega þurfum við að horfa á allar þessar sviðsmyndir því að það getur eitthvað komið upp, eins og gerðist í Grindavík þegar það rofnaði vatnslögn og við erum bara með eina vatnsveitu. Þannig að við þurfum að horfa á þetta allt saman. Það má eiginlega segja að stjórnvöld hafi verið mjög opin fyrir slíku og hafa verið með starfshóp sem hefur unnið með okkur til að finna svona leiðir framhjá þessu.“

En eins og staðan er núna þá höfum við ekki metið það svo að mannvirkin væru í mikilli hættu.“...

Orkkuverið í Svartsengi er nærri hálfrar aldar gamalt. Nú verður það „uppfært“ tæknilega og munu þær breytingar gefa af sér fullt af nýrri orku. VF-mynd: OZZO

Fleiri í Auðlindagarðinn

Ekki er langt síðan að greint var frá byggingu á stærsta landeldi í heiminum á Reykjanesi sem er í eigu Samherja en það verður þá staðsett í Auðlindagarðinum en þar nýta flest fyrirtækin endurnýtanlega orku á margvíslegan hátt. Forstjóri HS Orku sagði í Víkurfréttaviðtali fyrir tveimur árum að meiri kraftur yrði settur í að markaðssetja Auðlindagarðinn sem hefur gefið vel af sér og markmiðið væri að fá fleiri fyrirtæki og aðila inn á svæðið. Hvernig hefur það gengið?

„Það hefur gengið vel. Þú nefnir réttilega fiskeldisverkefnið á Reykjanesi og við höfum unnið mjög mikla forvinnu síðustu tvö árin, skipulagt lóðir, verið tilbúin undir ný verkefni, verið að vinna í að ná í nýja viðskiptavini og allt þetta tekur tíma, lykilatriðið er að vera tilbúin og vita á hvaða markaði við viljum sækja. Það eru fjöldamörg verkefni núna sem eru á teikniborðinu og í spjalli við okkur, flest tengjast þau matvælavinnslu eða einhverju slíku. Þannig að við horfum bjartsýn fram veginn í þessu og teljum að það séu mörg tækifæri í auðlindagarðinum.“

Það er sem sagt von á fleiri fyrirtækjum, inn í Auðlindagarðinn á næstu árum?

„Já, það ætla ég rétt að vona. Við höfum sett mikinn fókus á þetta, við höfum lagt í mikinn kostnað við að skipuleggja svæðin og vera undirbúin. Og skilja þær auðlindir sem við getum selt og hvaða viðskiptavinir gætu mögulega komið til greina. Við sjáum mikinn áhuga frá þeim, svo núna er bara að ljúka samningum með nokkur svona verkefni og fjölga þessum tækifærum í Auðlindagarðinum. Það var gerð úttekt fyrir nokkrum árum, þá voru tæplega tvö þúsund störf sem tengjast Auðlindagarðinum hér á Suðurnesjum. Þetta er allt saman gjaldeyrisskapandi störf, þetta er allt saman mjög gott fyrir hagkerfið og við viljum bara halda áfram að leggja okkar að mörkum til að styrkja svæðið.“

Þetta stóra landeldi, fiskeldi Samherja, hvað þarf svona starfsemi mikla orku frá ykkur?

„Það vill svo heppilega til að við notum sjó til að kæla túrbínurnar okkar. Hluti orkunnar sem þeir fá er í formi varmans í sjónum, yfir þrjátíu gráðu heitur sjór. Þannig að það er eitt og svo þurfa þeir um sextán megavött af rafmagni svo þetta er stór notandi á öllum mælikvörðum á orku. Svona verkefni nota orku, ekki eins mikið og álver sem nota fleiri hundruð megavött, en kannski eitthvað af þeim skala sem hentar okkur betur og við skiljum vel því við byggjum svo margt á sjávarútvegi og þekkjum markaðinn og annað þess háttar. Þannig að ég held að það séu fjöldamörg tækifæri í þessum geira.“

Þið hafið ekki eingöngu verið á Suðurnesjum, þið hafið eitthvað verið úti á landi?

„Til dæmis erum við með virkjun í Bláskógabyggð og þar erum við tengd mörgum gróðurhúsum. Gróðurhúsabændur eru okkar viðskiptavinir og við höfum átt geysigott samstarf við þá og aukið afhendingaröryggið á svæðinu með okkar virkjun. Við höfum líka verið að vinna með aðilum sem eru að undirbúa í Ölfusi, þannig að við sjáum tækifæri til að nýta þekkingu sem við höfum aflað hérna í Auðlindagarðinum víðar á landinu. Þannig að ég vona bara að framtíðin sé björt hvað þetta varðar.“