Viðskipti

  • Tíu milljarða hagnaður af sölu fasteigna Varnarliðsins
  • Tíu milljarða hagnaður af sölu fasteigna Varnarliðsins
Þriðjudagur 20. desember 2016 kl. 17:16

Tíu milljarða hagnaður af sölu fasteigna Varnarliðsins

— Kadeco selur íbúða- og atvinnuhúsnæði til Íslenskra fasteigna fyrir 5 milljarða króna

Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur selt Íslenskum fasteignum ehf., sem fer fyrir hópi fjárfesta, íbúða- og atvinnuhúsnæði á Ásbrú fyrir um 5 milljarða króna. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður í dag.

Eignirnar voru settar í opið söluferli sl. vor. Um er að ræða húsnæði sem skráð er á samtals 231 fastanúmer eða um 28% af heildarfermetrafjölda þess húsnæðis sem Kadeco hefur haft umsýslu með fyrir hönd íslenska ríkisins.

Eignirnar eru í mismunandi ástandi og fyrir liggur að leggja þarf verulega fjármuni í viðhald og endurbætur á þeim á næstu árum. Áætlun Kadeco gerði ráð fyrir að fjárfesta þyrfti um tveimur milljörðum króna í því skyni að koma þeim í notkun.

Með sölunni hefur Kadeco lokið við að selja um 93% þess húsnæðis sem félagið hefur haft til umsýslu á Ásbrú fyrir hönd ríkissjóðs eftir brotthvarf Bandaríkjahers frá Miðnesheiði. Frá þeim tíma hafa fasteignirnar verið seldar til 38 mismunandi aðila í opnu söluferli.

Heildarsöluandvirði eignanna frá upphafi nemur samtals um 17,6 milljörðum króna. Þar af hefur Kadeco undanfarin tvö ár selt eignir fyrir 8,5 milljarða. Ætla má að hreinar tekjur Ríkissjóðs af sölu eigna sinna á Ásbrú muni á endanum nema ríflega 10 milljörðum króna.

„Þessi eignasala er enn eitt skrefið sem Kadeco stígur í átt að þeim markmiðum sem að var stefnt þegar félagið var stofnað og ríkið tók við eignum varnarliðsins hér á Ásbrú. Salan er ekki síður ánægjuefni fyrir samfélagið hér á Reykjanesi. Hún er staðfesting á þeim uppgangi og uppbyggingu sem átt hefur sér stað og framundan er hér á svæðinu og sýnir að einkaaðilar eru reiðubúnir til þess að leggja verulegt fjármagn til þeirrar uppbyggingar til framtíðar,“ segir Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Kadeco.

„Fram til þessa hefur okkur gengið vel að byggja upp íbúabyggð og öfluga atvinnustarfsemi á svæðinu. Heildarfjárfesting á svæðinu er nú þegar orðin á annað hundrað milljarða króna og munar þar mestu um uppbyggingu gagnavera. Við teljum að nálægð við Keflavíkurflugvöll skapi mikil tækifæri til frekari uppbyggingar og trúum því að hún verði enn kraftmeiri en áður með aðkomu nýrra aðila að verkefninu sem koma mun öllu samfélaginu hér til góða. Í dag búa um 2.500 manns á Ásbrú og á annað hundrað fyrirtæki eru hér með starfsemi,“ segir Kjartan jafnframt.



Frá undirritun kaupsamninga í dag. VF-myndir: Eyþór Sæmundsson

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024