Tímamót hjá Toyota Reykjanesbæ
-Ævar Ingólfsson fagnar tuttugu ára opnun Toyota á Fitjum en ferillinn er þó lengri
„Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar litið er til baka til ársins 1986 þegar ég byrjaði í bílasölunni eru yfir 30% vextir á skuldabréfum og víxlum sem notaðir voru töluvert í bílaviðskiptum þegar ég var að byrja . Við fluttum í nýtt húsnæði á Fitjum fyrir tuttugu árum síðan og það var gæfuspor,“ segir Ævar Ingólfsson, eigandi Toyota Reykjanesbæ en á tímamótunum var bílasýning um síðustu helgi.
Ævar steig sín fyrstu spor í bílasölu hjá Brynleifi Jóhannssyni sem rak Bílasölu Brynleifs að Vatnsnesvegi 29 í Keflavík.
Ævar keypti bílasöluna af Brynleifi og hóf eigin rekstur 1996. Þegar við biðjum hann um að rifja meira upp á bílasöluferlinum segir að auk vaxtaokurs fyrri tíma sé hægt að horfa til þess að fjármögnun bíla eru komin í mun heilbrigðara umhverfi, með tilkomu bílalána þar sem ekki er nauðsynlegt að hafa ábyrgðarmenn á lánum eins og í gamla daga. „Svo getum við sagt að tilkoma farsímans, sérstaklega gsm símans hafi verið bylting fyrir bílasala. Það var oft mjög erfitt að ná í fólk yfir daginn þegar það var kannski bara hægt að hringja í vinnusímann eða heimasímann. Sé nú ekki talað um tölvupóst,“ segir Ævar.
Toyota Reykanesbæ undir stjórn Njarðvíkingsins hefur gengið vel í gegnum tíðina og verið iðulega söluhæsta bílasalan undir merkjum Toyota en einnig verið með vinsælustu bílasölum á Suðurnesjum. Það hafi verið bylting þegar bílasalan opnaði í nýju húsnæði að Fitjum í Njarðvík. Í kjölfarið opnuðu fleiri bílasölur á Fitjum en þar eru núna fimm bílasölur.
Ævar og félagar selja ekki bara Toyota heldur líka notaða bíla af öllum gerðum. Hann segir að á undanförnum árum hafi bílaleigur komið mjög sterkar inn en einstaklingar hafi einnig sett í gír eftir að hagur fólks fór að vænkast að nýju eftir bankahrun. Nýja árið segir hann byrja mjög vel en hann er ekki í vafa þegar hann er spurður út í breytingar á bílum í gegnum tíðina. „Bílar eru almennt stærri og miklu öruggari. Það er veruleg þróun varðandi mengun bíla en Toyota leggur mikla áherslu á hybrid bíla sem eru 50% rafmagn og 50% bensín bílar þar af leiðandi mjög umhverfisvænir og eyðslugrannir,og mun framboð slíkra bíla aukast töluvert á næstu árum“ sagði Ævar.
Ævar á tali við gamlan viðskiptavin, Óskar Þórhallsson.
Toyoturnar eru til í mörgum stærðum og gerðum.
Séð yfir bíla-Fitjarnar, Toyota Reykjanesbæ er fremst á myndinni.