Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Þýðir ekkert að leggjast í volæði
Mánudagur 1. júní 2009 kl. 08:43

Þýðir ekkert að leggjast í volæði

-segir Áskell Agnarsson sem rekið hefur Húsagerðina tæp 40 ár


Húsagerðin ehf er eitt elsta byggingafyrirtækið hér á Suðurnesjum og en það hóf rekstur árið 1972. Eigandi fyrirtækisins, Áskell Agnarsson, segist hafa upplifað ýmsar sveiflur á þessum tíma eins og gengur í öllum fyrirtækjarekstri þó engin þeirra líkist því sem menn standi frammi fyrir núna. 

Verðmætin liggja í starfsfólkinu


Löng reynsla Áskels í rekstri hefur kennt honum að best sé að hafa vaðið fyrir neðan sig og að hin sönnu verðmæti fyrirtækisins liggi í góðu og tryggu starfsfólki. Ólíkt mörgum öðrum fyrirtækjum í þessum geira hefur Húsagerðin ekki þurft að segja upp nema tveimur starfsmönnum í því gríðarlega erfiða árferði sem nú er. Í dag eru 10 manns á launaskrá hjá fyrirtækinu, flestir þeirra með langan starfsaldur og sumir með yfir 20 ár.
Áskell segist hafa verið með fimm óseldar íbúðir af 18 á Víkurbraut 17 þegar efnahagshrunið reið yfir síðasta haust. Ekkert sé hægt að vita hvenær þeim verði komið í verð, eins og staðan er í dag.  Fyrir vikið hvíli fjárfestingin á fyrirtækinu.
„Engu að síður er ég með sama starfsmannafjölda. Ég hef reyndar aldrei verið með mikinn mannskap heldur frekar keypt undirverktaka þegar ég er með þannig verk. Það er því huggun harmi gegn að maður hefur ekki þurft að segja upp nema tveimur mönnum. Það var um síðustu mánaðamót þannig að þeir starfa hér enn og svo veit maður ekki með framhaldið.“

Bullandi undirboð

Þetta er ekki alveg steindautt, segir Áskell. Í stöðunni sem nú ríkir á byggingamarkaði hefur fyrirtækið verið að sinna ýmsum öðrum verkum, s.s. út í Helguvík og margvíslegum smærri verkefnum sem ekki gafst tími í þegar allt var á fullu í góðærinu. Á verkstæðinu er t.d. fullkominn vinnslulína til gluggaframleiðslu sem ekki hefur verið nýtt nógu vel vegna anna. Með henni er nú verið að framleiða glugga og hurðar til viðhaldsverkefna um víðan völl. Þá stendur fyrir dyrum uppsteypuverk í Svartsengi þar sem gera á nýja dælustöð.  „Þannig að það er alveg þokklegt í okkur hljóðið enda þýðir ekkert að leggjast í eitthvert volæði,“ segir Áskell.
Útboð eru einhver í gangi og eins og gefur að skilja er slagurinn mjög harður á þeim markaði.
„Þessi útboðsmarkaður hefur verið mjög svo skrýtinn, eins það að menn séu að vinna fyrir 50 – 60% undir kostnaðaráætlun. Ég bauð nýlega í verk inn í Hafnarfirði þar sem 39 aðilar skiluðu inn tilboði. Kostnaðaráætlun var upp á rúmar 100 milljónir. Að einhver sé tilbúinn til að vinna þetta fyrir hálfvirði er alveg ótrúlegt. Svo eru kannski 30% efniskaup þannig að ég skil ekki hvernig menn ætla að fara að þessu,“ segir Áskell. 

Vextirnir sliga fyrirtækin

Áskell var inntur eftir því hvað gerast þyrfti á næstunni til að bæta ástandið.

„Ef það er eitthvað sem búið er að fara illa með mann og þarf að laga þá er það vaxtastigið. Vaxtakostnaðurinn er það sem étur mann upp. Þetta eru rosalegar upphæðir sem maður er að greiða bara í vexti. Það er ekki svo að maður hafi þurft að standa í afskriftum á kröfum eða öðrum áföllum. Fyrst og fremst eru það vextirnir sem éta upp eigið fé vegna þess að lánstíminn er orðinn allt annar en til stóð. Þegar þú getur ekki selt þegar þú ætlar að selja þá siturðu uppi með fjárfestinguna með sama verð á íbúðunum í krónutölu og var fyrir 14 mánuðum. Á meðan hefur byggingakostnaður hækkað yfir 30%.  Þegar þú þarft að selja þrjár íbúðir í einni blokk til að klára tvær í annarri, þá sjá menn hversu vitlaust þetta er,“ segir Áskell.




 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024