Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 23. nóvember 2001 kl. 21:07

Þurrkaður ufsi er herramanns matur

Í einu nýju stálgrindahúsanna við höfnina í Vogum er lítil fiskverkun sem hefur verið starfsrækt þar nú í tæpt ár. Pétur Einarsson og eiginkona hans Margrét Aðalsteinsdóttir hafa rekið Fiskverkun Péturs og Óla í u.þ.b. átta ár en meðeigendur þeirra í fyrirtækinu er systir Péturs, Matthildur og eiginmaður hennar Ólaflur Snorrason Selfossi en þau reka einnig Ræktunarsamband Skeiða og Flóa.
Rekstur fiskvinnslunnar byrjaði í Innri Njarðvík en þau keyptu þá hluta þrotabús Brynjólfs. Þar var Fiskvinnsla Péturs og Óla starfrækt þar til síðasta sumar þegar vinnslan var flutt til Voga en Pétur og Margrét búa þar. Pétur og Óli kaupa ufsa héðan og þaðan af landinu og vinna til manneldis en fiskurinn er fluttur til Púertó Ríkó. „Áður en ufsinn er fluttur út er hann þurrkaður. Við flökum hann og roðrífum, plokkum beinagarðinn úr. Síðan er hann saltaður og rifinn upp og að lokum settur á bretti undir þungt farg og þurrkaður“, segir Pétur og bætir við að eftir þurrkun hvítnar ufsinn og er mun betri afurð en áður. Ís-salt í Vogunum sér síðan um það að flytja ufsann alla leið suður til kaupenda í Púertó Ríkó. „Ef við fáum nægt hráefni þá sendum við út einu sinni í viku en úti er þetta álitinn dýr og góður matur.“ Pétur hefur sjálfur bragðað á framleiðslunni og segir fiskinn bragðast ágætlega þá hann sé nú ekki á borðum landsmanna.
Starfsmenn fyrirtækisins eru 5 um þessar mundir en auk þeirra hjóna vinnur ungt par frá Finnlandi við fiskverkunina. „Við keyptum flökunarvél fyrir þrem árum og fækkuðum þá um þrjá starfsmenn en það hefur gengið erfiðlega að fá Íslendinga til vinnu“, segir Pétur en parið frá Finnlandi kom í haust og áætlar að vera á Íslandi í eitt ár. Að sögn Péturs hefur reksturinn gengið vel allt frá því þau byrjuðu fyrir átta árum. Þó eru engar stækkanir eða breytingar fyrirhugaðar en mestu skiptir að koma aðstöðu starfsfólk í samt lag. Sjálfur hefur Pétur aldrei farið til Púertó Ríkó en systir hans og eiginmaður hennar komu þá við. „Óli sagði þegar hann kom heim að það hefði vantað fisk frá Pétri og Óla en það var náttúrulega allt sagt í gríni“, segir Pétur að lokum og tekur til við beinhreinsunina að nýju.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024