„Þurfum ekki að vera stærst, við þurfum bara að vera ánægð“
-Húsgangaverslunin Bústoð fagnar 40 ára afmæli á þessu ári
Ástin kviknaði á táningsaldri í Kaupfélaginu sáluga hjá þeim Róberti og Hafdísi sem í daglegu tali eru kennd við húsgangaverslunina Bústoð í Reykjanesbæ sem fangar 40 ára starfsafmæli á þessu ári. Þau ólust upp í Kaupfélaginu ef svo mætti segja og ákváðu þau sjálf að reyna sér í verslunarrekstri þegar þau voru rétt tæplega þrítug. „Verslun var það sem við kunnum. Það var verið í að pæla í ýmsu og m.a. byggingarvöruverslun og matvöruverslun. „Svo enduðum við í húsgögnunum sem er sennilega happaspor,“ segir Róbert. „Það hafði enginn trú á því að þetta gengi og mörgum leist ekkert á þetta þegar við opnuðum. Okkur var ekki spáð langlífi í þessu,“ bætir Hafdís við.
Fyrstu árin voru líka nokkuð strembin. Róbert vann þá allar nætur við að vigta afla í fiskiðjunni, frá klukkan 20:00 til 4 á nóttunni. Hafdís stóð vaktina í búðinni en Róbert mætti þangað um klukkan 11:00 á morgnana. „Við tókum engin laun út úr fyrirtækinu fyrstu árin. Það er grunnurinn að þessu að fyrirtækið skuldaði alltaf lítið og skuldar ekkert í dag. Þannig stóðum við af okkur kreppuna með því að eiga allan lager, húsnæði og allt.“
Þann 14. mars árið 1975 opnar Bústoð. Á sama tíma var verið að ganga inn í EFTA og við það féllu niður tollar af húsgögnum. Þau hjónin fór því að flytja inn erlend húsgögn árið 1976 og voru þau meðal þeirra fyrstu hérlendis sem það gerðu. „Þegar tollarnir fóru af þá varð þarna gullaldartími, gekk rosalega vel. Við seldum á fyrsta mánuðinum það sem við höfðum áætlað að selja yfir árið,“ segir Róbert. Verslunin var 250 m2 fyrst um sinn en stækkaði fljótlega um helming og var svo orðin 1000 m2 áður en langt um leið. Búðin var þá á Vatnsnesvegi 14. Það er svo árið 1985 sem starfsemin fluttist á núverandi stað á Tjarnargötu 2 í glæsilegt 1600 m2 húsnæði.
Síðan eru liðin 40 ár og reksturinn hefur gengið vel á þeim tíma og er líklega bara ein verslun sem hefur hærri starfsaldur, en það er verslun Georg V. Hannah. „Þetta hefur alltaf gengið mjög vel. Þetta er mjög skemmtilegur bransi en auðvitað hefur verið tröppugangur,stundum í takt við árferðið,“ segir Róbert.
Á þessum tíma hafa komið ýmsar tískusveiflur í húsgagnabransanum. Hafdís segir að tískan sé nú komin í hring. Margt sem var á boðstólnum þegar þau voru að hefja rekstur, sé nú komið aftur í tísku hjá unga fólkinu. „Við eigum okkar kúnna frá því að við byrjuðum. Þeir koma alltaf aftur og aftur, allt innbúið er jafnvel frá okkur,“ segir Hafdís. Nú sé svo komið að þriðja kynslóð af viðskiptavinum er að sækja til þeirra, sem segir ýmislegt um traustið sem borið er til þeirra. Þau þakka velgengni sinni góðu starfsfólki og tryggum kúnnum. Alla tíð hefur fólk hvaðanæva að á landinu haldið tryggð við verslunina. Róbert segir að skýringuna á því megi fyrst og fremst þakka góðu og samkeppnishæfu verði og fjölbreyttu úrvali. Netið hefur breytt talsverðu í verslun og segja þau hjónin að margir viðskiptavinir rati til þeirra eftir að hafa fundið gott verð og úrval hjá þeim á netinu. „Við viljum endilega fá að þakka fyrir að hafa fengið að vera með viðskiptavinum okkar í þessi 40 ár og vonum að þeir séu jafn ánægðir og við. Sérstaklega viljum við þakka okkar frábæra starfsfólki í gegnum tíðina sem hefur reynst okkur vel.
Þau hjónin eru sammála um að mikilvægt sé að fylgjast með nýjustum straumum og tísku í þessum geira. Á hverju ári fara þau á stórar húsgagnasýningar erlendis þar sem þau hafa myndað mikil og góð sambönd í gegnum tíðina. Jafnvel eignast kæra vini sem starfa í þessum sama bransa. „Það er líka gott að vera sjálf í afgreiðslunni því þá fær maður beint samband við kúnnann. Maður sér hverju hann er að leita eftir,“ segir Róbert.
Við byggingu Bústoðar við Tjarnargötu.
Eftir efnahagshrun kom upp sú hugmynd hjá þáverandi starfsfólki þeim Reyni og Ásu hvort ekki væri rétt að opna gjafavöru- og ljósadeild í versluninni og það varð úr og reyndist þetta gott innlegg í verslunina því húsgagnasala hafði dregist mikið saman við hrunið. Þetta var kærkomin viðbót við verslunina og hefur verið vinsæl hjá viðskiptavinum alveg frá upphafi.
Á þessum 40 árum hafa ýmis aðilar sýnt fyrirtækinu áhuga. Fólk hefur viljað fá þau í eins konar útrás á höfuðborgarsvæðið og viljað stækka verslunina frekar. „Við höfum alltaf sagt sjálfum okkur að við þurfum ekki að vera stærst, við þurfum bara að vera ánægð,“ segir Róbert.
Verslun í bæjarfélaginu hefur farið aðeins niður að þeirra mati. „Þegar við byggðum hér þá var aðal vandamálið að hér voru ekki bílastæði í kring. Það hefur ekki verið vandamál síðustu ár. Ég hugsa að það verði nú ekki spennandi að búa hérna ef verslanir hérna hverfa hreinlega á brott,“ segir Róbert en hann telur að bæjarbúar veriði að standa saman í að tryggja verslun og þjónustu á svæðinu.
Þetta var eitt reisulegasta hús bæjarins á sínum tíma.
Starfsfólkið á allt sama afmælisdag
Fyrir tveimur árum stóðu hjónin í ráðningum á starfsfólki og sóttu margir frambærilegir um. „Það var svo ráðið í þrjár stöður eftir viðtöl og allt það ferli. Þá kemur það í ljós að þau eru öll fædd sama daginn, þann 4. október. Hverjar eru líkurnar á því, þetta er alveg einstakt,“ segir Hafdís og Róbert skellir upp úr. „Þetta er rosalega þægilegt fyrir okkur því nú er bara haldin ein afmælisveisla á ári fyrir starfsfólkið.“
„Það er alltaf voðalega gaman í þessu en ætlum við þurfum ekki að fara að huga að starfslokum, búin að vera í þessu í fjörtíu ár ,. Ætli hrunið hafi ekki seinkað okkur aðeins í þeim málum. Núna síðustu ár er verslun orðin góð aftur og því er hægt að fara að skoða starfslokin,“ segir Róbert en þau eru rétt kominn á löglegan aldur til þess að fara að huga að eftirlaunum.
„Við viljum svo óska öllum viðskiptavinum og öðrum landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári með þökk fyrir ánægjuleg samskipti í 40 ár“ segja þau Hafdís og Róbert að lokum.
Hér að neðan má sjá nokkrar gamlar og góðar myndir úr sögu verslunarinnar.
Reynir Þór Róbertsson sonur þeirra hjóna starfaði lengi vel í versluninni.