Þrír nýir framkvæmdastjórar hjá Bláa Lóninu

Megin starfsemi Bláa Lónsins fer nú fram innan þriggja kjarnasviða. Framkvæmdastjórar sviðanna setjast í framkvæmdastjórn félagsins. Stóraukinn kraftur verður lagður í stafræna þróun, sölu og þjónustu við viðskiptavini.
 
Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá Bláa Lóninu og fer megin starfsemi þess nú innan þriggja kjarnasviða. Breytingarnar endurspegla aukna áherslu á stafræna þróun og samþættingu í rekstri félagsins.
 
Framkvæmdastjórar sviðanna þriggja verða Þórey G. Guðmundsdóttir, Helga Árnadóttir og Már Másson. Þau taka jafnframt sæti í framkvæmdastjórn Bláa Lónsins, ásamt Grími Sæmundsen forstjóra og Garðari Gíslasyni, lögmanni félagsins.
 
„Einn megin drifkraftur Bláa Lónsins er viljinn til breytinga. Starfsmenn og stjórnendur Bláa Lónsins hafa náð frábærum árangri  á undanförnu ári með opnun á nýju hóteli, veitingastöðum og upplifunarsvæði og áframhaldandi öflugum rekstri Bláa Lónsins,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins. „Á næstu misserum munum  við fjárfesta frekar í upplýsingatækni og setja stóraukinn kraft í stafræna þróun, sölu og þjónustu við okkar viðskiptavini. Þá munum við  einbeita okkur að því að samhæfa alla starfsemi okkar og tryggja að allir gangi í takt. Þessar breytingar miða einmitt að því .“
 
Kjarnasviðin þrjú eru viðskipta- og rekstrarsvið, fjármála- og upplýsingatæknisvið og þróunar- sölu- og markaðssvið.
 
 
Nánari upplýsingar um framkvæmdastjórana þrjá:

 
Þórey G. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs
 
Þórey G. Guðmundsdóttir er framkvæmdastjóri fjármála- og upplýsingatæknisviðs Bláa Lónsins. Þórey hefur verið fjármálastjóri Bláa Lónsins síðan 2013.
 
Áður starfaði Þórey hjá Samskipum þar sem hún bar ábyrgð á fjárhagsáætlunum og uppgjöri félagsins og dótturfélaga á Íslandi. Hún var forstöðumaður fjármálasviðs hjá Straumi Fjárfestingabanka 2004-2013. Þá starfaði hún sem sérfræðingur á fjármálasviði Íslandsbanka (áður FBA) frá 2000 til 2004 og hjá KPMG á tímabilinu 1995 til 1999. Þórey er viðskiptafræðingur, Cand oecon frá Háskóla Íslands.
 
 
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri þróunar-, sölu- og markaðssviðs
 
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri þróunar, sölu- og markaðssviðs Bláa Lónsins. Þróunar, sölu- og markaðssvið ber ábyrgð á öllum sölu- og markaðsmálum félagins og leiðir stafræna vöruþróun Bláa Lónsins.
 
Helga hóf störf hjá Bláa Lóninu í júní síðastliðnum en áður var hún framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar frá 2013 til 2018. Hún var fjármálastjóri og síðar framkvæmdastjóri VR á árunum 2008-2013. Áður gegndi hún ýmsum stjórnunarstöðum hjá Icelandair og var m.a. forstöðumaður Vildarklúbbs Icelandair, sölustjóri Icelandair á Íslandi og deildarstjóri áætlunar- og eftirlitsdeildar Icelandair. Helga er viðskiptafræðingur, Cand oecon frá Háskóla Íslands og með MSc. gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.

 
Már Másson - framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs
 
Már Másson er framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs Bláa Lónsins. Undir viðskipta- og rekstrarsvið heyra viðskipta- og rekstrareiningar Bláa Lónsins hf. í Svartsengi, en félagið rekur þar tvo baðstaði, fjóra veitingastaði og verslun og einnig verslanir í Leifsstöð og í Reykjavík. Þá heyrir fasteignasvið og mannauðs- og gæðasvið einnig undir viðskipta- og rekstrarsvið. 
 
Már hefur starfað hjá Bláa Lóninu frá því 2016 sem forstöðumaður markaðs- og mannauðssviðs félagsins. Áður starfaði Már hjá Íslandsbanka frá árinu 2008. Þar veitti hann samskiptasviði bankans forstöðu auk skrifstofu bankastjóra. Þá var hann forstöðumaður Dreifileiða og nýsköpunar hjá bankanum 2013-2016. Már er með B.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá CBS í Kaupmannahöfn og MSc. gráðu í stjórnun frá USI í Lugano í Sviss.