Þjálfar skæruliða!
Margir muna eflaust eftir Þórönnu K. Jónsdóttur þegar hún var verkefnastjóri Frumkvöðlasetursins á Ásbrú og var m.a. ósjaldan á síðum Víkurfrétta í tengslum við það. Nú eru að verða tvö ár síðan Þóranna hætti störfum hjá Frumkvöðlasetrinu, en það er langt frá því að hún hafi setið iðjulaus. Hún er nefnilega kona með markmið. Markmiðið er að þjálfa upp öfluga íslenska skæruliða sem geta sigrað heiminn. Ekki með byssum og sprengjum, heldur með öflugri markaðssetningu!
„Ég var búin að vera í markaðs- og auglýsingamálum í mörg ár áður en ég tók að mér verkefnastjórastöðuna hjá Kadeco, og þegar ég fór að vinna með minni fyrirtækjum í gegnum Frumkvöðlasetrið þá sá ég hversu gríðarleg þörf er á að bæta markaðsstarf þessara fyrirtækja,“ segir Þóranna. „Það er súrt að vita til þess að fólk sé með frábæra vöru eða þjónustu í höndunum, en það verður aldrei neitt úr neinu vegna þess að fyrirtækin klikka á markaðsmálunum – sem eru ekkert vúdú. Markaðsstarfið nær jú í viðskiptavinina og án þeirra er maður víst ekki lengi í rekstri,“ segir Þóranna. Minni fyrirtæki hafa hins vegar ekki efni á að ráða starfsmann eða kaupa dýra markaðsráðgjöf til að bæta úr þessu svo til að geta veitt þessa þjónustu á hagkvæman hátt brá Þóranna á það ráð að veita hana í gegnum netið, en þannig er hægt að þjónusta færri og því bjóða þjónustuna á hagkvæmari kjörum.
Víkurfréttir greindu einmitt frá því á síðasta ári þegar viðskiptaáætlunin fyrir þjálfunina lenti í topp 10 í viðskiptaáætlunarkeppni Innovit, Gullegginu. „Það var mjög gaman að fá þessa viðurkenningu á því að maður væri á réttri leið með þetta, en það er líka magnað hvað mikið gerist á einu ári og hvernig hlutirnir þróast,“ segir Þóranna. „Það er náttúrulega sérstaklega gaman þegar viðskiptavinum manns gengur vel og maður sér árangurinn af þjálfuninni og allri vinnunni í verki.“
Þjálfunin leiðir fólk í gegnum frumskóginn og fer skref-fyrir-skref í gegnum það sem þarf til að leggja grunn að góðu markaðsstarfi – á mannamáli – enda starfar Þóranna undir merkjum Markaðsmála á mannamáli. „Fólk hefur ekkert við eitthvað fræðilegt mumbo jumbo að gera – þetta þarf bara að vera skiljanlegt og hagnýtt. Ég líki þjálfuninni stundum við þekkta sænska húsgagnavöruverslun,“ segir Þóranna og brosir, „fólk fær tækin, tólin og leiðbeiningarnar en græjar hlutina sjálft, og þannig er hægt að hjálpa þeim á verði sem þau ráða við.“
„Það er talað um skæruliðamarkaðssetningu þegar leitast er við að fara hagkvæmar og óhefðbundnar leiðir í markaðssetningunni og árangurinn mældur í hagnaði frekar en sölu. Það er sosum ekkert stórmál að selja rosa mikið ef maður eyðir rosalega miklu til þess, en þá verður ekkert eftir – þess vegna hef ég alltaf verið hrifin af skæruliðaaðferðinni. Ég stefni að því að búa til fullt af markaðsskæruliðum!“ segir Þóranna að lokum.
Á vef þjálfunarinnar, mam.is, má fá meiri upplýsingar um þjálfunina ásamt upplýsingum um samfélagsmiðla, póstlista og annað fyrir þá sem vilja fá ýmsar gagnlegar ráðleggingar fyrir markaðsstarfið.