Það sem var vonlaust í gær er tækifæri í dag
Lúðvík Börkur Jónsson hefur nýlega keypt 21% hlut í Skipasmíðastöð Njarðvíkur og tekið sæti Helga Magnússonar, fyrrum aðaleigenda málningarfélagins Hörpu, í stjórn félagsins. Börkur er Suðurnesjamaður í húð og hár, fæddur og uppalinn í Garðinum en bjó að hluta til einnig í Sandgerði. Hann hefur alla tíð starfað innan sjávarútvegsins og var meðal annars í 10 ár framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna í Frakklandi, 5 ár einn af framkvæmdastjórum Hampiðjunnar og útgerðarmaður í Þorlákshöfn nokkur ár þar á milli.
Ýmis tækifæri til uppbyggingar
Börkur segist hlakka til að takast á við verkefnin í Skipasmíðastöðinni þar sem hann muni starfa við hlið þeirra Stefáns Sigurðssonar og Jóns Pálssonar, sem stjórnað hafa félaginu um langt árabil. Stefán er aðaleigandi félagsins en hluthafar eru fjölmargir, þar á meðal flest útgerðarfélög á Suðurnesjum. Segir Börkur rekstur félagsins hafa verið erfiðan um árabil með viðvarandi taprekstri en framundan geti verið ýmis tækifæri til uppbyggingar og útvíkkunar enda ljóst að skipafloti landsmanna mun ekki fara til Póllands á næstunni vegna viðhalds og breytinga.
„Málningarhúsið okkar er eina húsið sinnar tegundar á landinu þar sem hægt er að þjónusta millistór skip innandyra allan ársins hring, óháð veðrum og vindum. Gæði slíkrar vinnu eru eðlilega allt önnur auk þess sem hægt er standa við afhendingartíma af mun meira öryggi,“ segir Börkur.
Hann segir mikilvægt að ná auknum viðskiptum yfir vetrartímann og þurfi Skipasmíðastöðin að ná til sín skipum hvaðanæva að á landinu þegar skip eru að skipta á milli veiðarfæra eða stoppa af öðrum ástæðum. „Útgerðarmenn eru enn dálítið fastir í því að viðhald skipa eigi að fara fram yfir sumartímann en í sjálfum sér er sumar hjá okkur í Njarðvík allan ársins hring,“ útskýrir Börkur.
Sóknarfæri í erlendum viðskiptum
Börkur segir að hugsanlega geti legið tækifæri í erlendum viðskiptum þar sem aðstæðurnar í Njarðvík eru frábærar, starfsfólkið reynslumikið og gengisskráning hagstæð. „Til að ná erlendum viðskiptum þurfum við Suðurnesjamenn að geta boðið heildarþjónustu við þau skip sem kæmu til okkar, þjónustu sem Skipasmíðastöðin hefur ekki endilega á takteinunum, svo sem rafvirkjun, vélaupptektir, tækjauppsetningar og þess háttar,“ segir Börkur.
Börkur varpar fram þeirri hugmynd að koma saman kjarna fyrirtækja sem gætu sameinast um að veita erlendum viðskiptavinum Skipasmíðastöðvarinnar toppþjónustu á öllum sviðum enda ljóst að erlendir eigendur skipanna hefðu ekki þekkingu til að finna sjálfir þjónustufyriræki á sama hátt og Íslendingar. „Slíkt þjónustutilboð væri ákveðinn grundvöllur þess að markaðssetning Suðurnesja sem þjónustusvæði fyrir erlend skip undir regnhlíf Skipasmíðastöðvarinnar gæti orðið árangursrík. Nú eru allar aðstæður gjörbreyttar, það sem var vonlaust í gær er tækifæri í dag,“ segir Börkur og er bjartsýnn á framtíð Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur.
---
VFmynd/elg - Lúðvík Börkur Jónsson.