Það má líkja Eldey við gróðurhús
– segir Dagný Gísladóttir verkefnastjóri í Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú
Frumkvöðlasetrið á Ásbrú hóf starfsemi sína árið 2008 og hefur skapað umgjörð og vettvang fyrir fjölda nýsköpunarfyrirtækja sem hafa þar stigið sín fyrstu skref í þróun sinnar viðskiptahugmyndar. Setrið er rekið af Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja, í samstarfi við KADECO Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem er eigandi húsnæðisins en verkefnastjóri er Dagný Gísladóttir.
„Við tókum yfir rekstur setursins árið 2011 þegar Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja varð til og höfum unnið að þróun þess í góðu samstarfi við Kadeco,“ segir Dagný en frumkvöðlasetrið opnaði formlega árið 2008. Setrið þjónar frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á öllum stigum, allt frá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref og til þeirra sem komnir eru í rekstur, auk stærri fyrirtækja sem vilja efla sig með nýsköpun og vöruþróun.
„Þetta var mjög spennandi verkefni og mikil áskorun í upphafi þar sem fjölga þurfti fyrirtækjum í setrinu til þess að ná þessari sérstöku dýnamík sem blómstrar í frumkvöðlasetrum en í dag er komin ákveðin kjölfesta í reksturinn og fjöldi fyrirtækja er venjulega nokkuð vel yfir 20, og alltaf mikil hreyfing í húsinu sem er að mínu mati jákvætt,“ segir Dagný en biðlisti er eftir aðstöðu í smiðjurými sem eru frá 50 – 160fm en að auki er hægt að leigja skrifstofur og stærri rými í skrifstofuhluta sem hentar frekar þeim sem ekki eru í framleiðslu.
Eldey er bæði vinnustaður og samfélag
„Eldey er bæði vinnustaður og samfélag. Það er svo mikið af frumkvöðlum sem sitja heima í eldhúsi, einir með sína hugmynd. Það er svolítið erfitt ef þetta á að blómstra. Um leið og þú kemur inn í svona umhverfi, ekki bara húsnæði, heldur samfélag annarra frumkvöðla, þá verður allt miklu opnara. Þú nærð að ræða hugmyndina þína við hina sem hérna eru og þá oft fara hlutirnar að gerast. Við reynum því að skapa umgjörð sem ýtir undir þetta samstarf og þetta tengslanet sem hér skapast auk þess að standa fyrir sameiginlegum viðburðum og kynningum á þeim fyrirtækjum sem hér starfa.“
Hlutverk Eldeyjar er að sögn Dagnýjar að skapa þekkingarumhverfi, aðstöðu og umgjörð fyrir frumkvöðla til að vinna að nýsköpun og veita þeim faglega þjónustu og stuðning við framgang hugmynda sinna. Eldey býður leigu til frumkvöðla á lágu verði og þar er veitt ráðgjöf s.s. við gerð viðskiptaáætlunar, styrkumsóknir og markaðssetningu en einnig stendur setrið reglulega fyrir fræðslu og fyrirlestrum sem hefur verið vel sóttis.
Vel sótt fræðsla
„Við höfum boðið upp á reglulega hádegisfyrirlestra í húsinu um allt það sem snýr að nýsköpun og sprotafyritækjum auk námskeiða þar sem farið er ítarlega í hlutina. Þetta hefur verið vel sótt svo það verður framhald á enda gott að fá nýtt fólk í húsið og kynna það þannig um leið auk þess sem fyrirtækin í setrinu eru dugleg að nýta sér þessa fræðslu“, segir Dagný en þessa dagana býðst einmitt áhugasömum að taka þátt í námskeiði Íslandsstofu um markaðsstarf á netinu í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness.
Mikilvægt samstarf við Keili
Eldey er stutt frá Keili, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú og hafa nemendur og frumkvöðlar þaðan nýtt sér aðstöðuna bæði á meðan á námi stendur og eins til að fylgja eftir sprotaverkefnum að loknu námi. Eitt af þessum sprotafyrirtækjum er Geosilica sem framleiðir heilsuvörur úr kísli sem unnin er úr affallsvatni jarðvarmavirkjana og annað er Mekano en þess má geta að bæði fyrirtækin hafa unnið til verðlauna í Gullegginu og verið tilnefnd til Nordic Startup Awards.
Hakkit – stafræn smiðja
„Þá má nefna annað skemmtilegt verkefni sem orðið hefur til í samstarfi við Keili en það er stafræna smiðjan okkar hér í Eldey, Hakkit – en hún er knúin afram af miklum áhuga tæknifræðinga sem útskrifaðir eru úr Keili og eins nemum þar. Þar gefst frumkvöðlum í húsinu, og á öllum Suðurnesjum, tækifæri til þess að spreyta sig á stafrænni tækni en í smiðjunni er þrívíddarprentari, cnc fræsari og laserskeri svo eitthvað sé nefnt auk búnaðar til einfaldrar forritunar sem gaman verður að prófa með nemendum á svæðinu. „Hakkit er opið þrisvar sinnum í viku og leiðbeinandi á staðnum en þar er jafnframt boðið upp á námskeið í hönnunar- og tilraunasmiðju í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og tómstundasmiðju fyrir unga fiktara.
„Þarna erum við að búa til forritara framtíðarinnar og hönnuði sem nýta sér stafræna tækni og möguleikarnir eru endalausir. Markmiðið er að efla tæknilæsi og þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu og efla nýsköpun og tæknivitund. Ein leið til þess er til dæmis að bjóða ungum nemanda að taka í sundur tölvu og skoða hvernig hún virkar,“ segir Dagný og leggur áherslu á að verkefni Eldeyjar sé einmitt að skapa umgjörð og veita aðgang að þekkingu og stuðningi en framtíðin muni leiða í ljós hver ávinningurinn verður fyrir atvinnuþróun og nýsköpun á Suðurnesjum.
„Við erum að byggja upp litla sprota, margir þeirra verða aldrei fullvaxta, en samkvæmt nýsköpunarfræðum getum við verið sátt ef 10% þeirra komast á legg. Þar búa gríðarleg tækifæri og það er mikilvægt að leyfa fjölbreytninni að blómstra og gefa sem flestum tækifæri til þess að vinna að sinni viðskiptahugmynd og styðja þá og efla á leiðinni. Það má því líkja Eldey við gróðurhús, við þurfum að vera dugleg að vökva og skapa góð uppvaxtarskilyrði – mjór er mikils vísir.“