Það er gott fyrir hagkerfið að fjölga konum
– í fyrirtækjarekstri
	Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, stóð fyrir kynningarfundi í Eldey frumkvöðlasetri í síðustu viku þar sem kynntur var stuðningur við konur í atvinnurekstri.
	
	Elín Gróa Karlsdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs, kynnti nýjan lánaflokk Byggðastofnunar en markmið hans er að fjölda konum sem viðskiptavinum stofnunarinnar en fyrirtæki í eigu kvenna eða fyrirtæki sem stýrt er af konum eru í miklum minni hluta fyrirtækja í viðskiptum við fjármálafyrirtæki, einkum á landsbyggðum. Fram kom í máli Elínar að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að fjölga konum í fyrirtækjarekstri og lítur Byggðastofnun á jafnréttismál sem byggðamál.
	
	Fida Abu Libdeh kynnti fyrirtækið Geosilica sem framleiðir hágæða heilsuvörur úr kísil sem unninn er úr affallsvatni jarðvarmavirkjana en fyrirtækið er um þessar myndir að setja á markað sína fyrstu vöru sem er kísilvatn.
	
	Þá kynnti Vinnumálastofnun Evrópuverkefnið FEMALE en þar geta frumkvöðlakonur skráð sig í tengslanet og nálgast hagnýta handbók á netinu auk þess að sækja um þátttöku í verkefninu. Markmið FEMALE er að efla og styðja við fyrirtækjarekstur kvenna og er unnið í samstarfi við Bifröst, Inova í Bretlandi, ATAEM á Spáni, KRIC í Litháen og Viteco á Ítaliu. Verkefnið er til tveggja ára og styrkt af Evrópusambandinu.
	
	

 
	
					 
	
					

 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				