Tekur við söluumboði Opel á Íslandi
Spennandi tímamót - segir eigandinn.
Bílabúð Benna hefur tekið við söluumboði Opel á Íslandi og mun kynna bílalínu frá Opel á sýningu að Njarðarbraut 9 hér í bæ á laugardag. Bæði er um að ræða Opel bíla sem ekki hafa sést hér á landi áður sem og bíla sem hafa áður verið í sölu. „Þetta eru spennandi tímamót hjá okkur,“ segir Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna. „Opel merkið er á mikilli uppleið í Evrópu, sala og markaðshlutdeild hefur aukist umtalsvert. Undanfarin ár hefur Opel fjárfest gríðarlega í þróunarstarfi og það hefur verið að skila sér í ótal hönnunar- og gæðaverðlaunum.“ Bílabúð Benna býður Suðurnesjamönnum á sýningu á laugardaginn frá kl. 12 – 16. Léttar veitingar verða í boði og ís og blöðrur fyrir krakkana.
Opel Adam.