Tekjur ISAVIA jukust um 10% milli ára
Ársreikningur Isavia fyrir árið 2018 var samþykktur á aðalfundi félagsins í dag. Rekstur ársins gekk áfram vel og var rekstrarafkoma í samræmi við áætlanir félagsins. Tekjur félagsins námu 41,8 milljörðum króna sem er 10% aukning á milli ára og er stærsti hluti tekna tilkominn vegna flugvallaþjónustu og vörusölu. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 12% milli ára, eða úr 8,8 milljónum í rúmlega 9,8 milljónir, flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið fjölgaði um rúm 6% og innanlandsfarþegum fækkaði um 4,5%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Rekstrarafkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 11,3 milljörðum króna og jókst um tæp 15% á milli ára. Heildarafkoma nam 4,3 milljörðum króna og hækkaði um rúmar 300 milljónir króna frá fyrra ári, eða 8%. Arðsemi eiginfjár var 12,9%.
Heildareignir samstæðunnar námu 79,8 milljörðum króna í árslok 2018 og jukust um 7,3 milljarða króna milli ára. Þar af eru 57,2 milljarðar króna tilkomnir vegna varanlegra rekstrarfjármuna. Staða eigin fjár hækkaði um rúma 4,3 milljarða króna milli ára sem skilaði 44,2% eiginfjárhlutfalli sem er 1,5% hækkun frá síðasta ári.
ÁFORMAÐ AÐ UPPBYGGING KEFLAVÍKURFLUGVALLAR HEFJIST 2021
Ingimundur Sigurpálsson, formaður stjórnar Isavia, ávarpaði fundinn og byrjaði á að minnast á þá staðreynd að þótt vel hafi gengið árið 2018 hafi dregið úr örum vexti síðustu ára innan greinarinnar í heild. Hann vék einnig að uppbyggingarþörf á Keflavíkurflugvelli þrátt fyrir spár um fækkun farþega til Íslands á árinu 2019.
„Sumarið 2018 flugu 30 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli til rúmlega 100 áfangastaða og 10 félög störfuðu árið um kring. Keflavíkurflugvöllur er rekinn í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og eigi hann að halda sæti sínu og taka við fjölgun farþega er enn frekari uppbygging nauðsynleg,“ sagði Ingimundur.
Hann nefndi að nú sé unnið að því að skipuleggja og áfangaskipta framkvæmdum miðað við áætlaða fjölgun farþega og hafa uppbyggingaráform verið sett í umhverfismat. Vinna er hafin við hönnun á endurbættri tengibyggingu og er stefnt á að hún verði komin að fullu í notkun 2023. Einnig er hafinn undirbúningur uppbyggingaáætlunar með útboði á verkefnisumsjón sem áætlað er að afgreitt verði í október á þessu ári. Ferlið markar upphafið að nýrri farþegaálmu, austurálmu, og flugstöðvarbyggingu. Áformað er að framkvæmdir hefjist árið 2021 og gætu þá fyrstu áfangar verið teknir í notkun á árunum 2024 og 2025.
Ingimundur fór yfir mikilvæg skref sem Isavia hefur tekið varðandi samfélagslega ábyrgð félagsins. Isavia hlaut Jafnlaunavottun í lok árs 2018 og hefur einnig verið tekið á umhverfismálum innan starfsstöðva Isavia. Isavia hefur sett sér markmið tengd heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Einnig gefur Isavia út árs- og samfélagsskýrslu sína út í þriðja sinn samvæmt viðmiðum GRI (Global Reporting Initiative) og nú í fyrsta sinn aðeins í vefformi.
Að lokum þakkaði Ingimundur fyrir ánægjulegt samstarf innan stjórnar Isavia síðastliðin sex ár og tilkynnti að hann myndi láta af störfum sem stjórnarformaður Isavia og hverfa úr stjórn félagsins.
FARÞEGUM FJÖLGAÐI Í FYRRA ÞRÁTT FYRIR ÞRENGINGAR
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sagði árið 2018 hafa verið viðburðarríkt hjá fyrirtækinu þrátt fyrir þrengingar á flugmarkaði. Farþegum fjölgaði þó um 12% á síðasta ári en Isavia vinnur á þeim forsendum að ferðamönnum fækki á árinu 2019. Það megi rekja til óvissu á markaði auk tækni- og rekstrarerfiðleika flugfélaganna.
„Í gegnum tíðina hefur Isavia og forverar þess lagt sig fram við að standa við bakið á sínum viðskiptavinum. Það eru hagsmunir Keflavíkurflugvallar, að sem flest flugfélög geti nýtt sér þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Hafa verður þó í huga að við getum ekki og viljum auðvitað ekki velja á milli flugfélaga. Svo framarlega sem það er pláss á flugvellinum og viðkomandi flugrekandi er reiðubúinn að uppfylla skilmála flugvallarins þá er hann velkominn,“ sagði Björn Óli.
Björn Óli vék að uppbyggingarþörf á Keflavíkurflugvelli og mikilvægi stærstu flugfélaganna.
„Til að mögulegt sé að halda áfram nauðsynlegri uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, til að uppfylla þjónustumarkmið miðað við núverandi fjölda farþega og til að byggja upp til framtíðar – þá er mikilvægt að núverandi nýtingin á innviðum Keflavíkurflugvallar minnki ekki. Leiðarkerfi Icelandair og WOW air byggja á því að ná fullri nýtingu á afkastagetu innviða Keflavíkurflugvallar yfir stuttan tíma dagsins í einu. Ef til þess kæmi að við myndum missa frá okkur hluta þeirra tekna, myndi það hafa áhrif á getu okkar til frekari uppbyggingar og kæmi niður á öllum notendum flugvallarins.“
Að sama skapi minntist Björn Óli á stöðu innanlandsflugvallakerfisins. Framlag hins opinbera hefur dregist saman á sama tíma og uppsöfnuð viðhalds- og endurnýjunarþörf hefur farið mjög vaxandi. Það ríkir skilningur stjórnvalda um að kerfið er undirfjármagnað, en endanleg lausn sem uppfyllir heildarhagsmuni flugvallageirans á Íslandi hefur ekki verið ákveðin.
Fram kom í máli Björns Óla að hann hefði áhyggjur af því að lausn á vandamálum innanlandsflugvallakerfisins hefði þær afleiðingar að gjaldskrár allra flugvalla landsins hækkuðu á sama tíma og flugrekendur ættu í vandræðum með rekstur sinn. Isavia fer eftir fyrirmælum ríkisins, eiganda Isavia, en allir þurfi að vera meðvitaðir um að ef gjaldskrár yrðu hækkaðar gæti komið til að draga þyrfti verulega úr uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Slíkar aðgerðir munu hafa víðtæk áhrif.
NÝ STJÓRN ISAVIA
Á aðalfundinum var einnig samþykkt ný stjórn félagsins. Aðalstjórn Isavia ohf. skipa þau Orri Hauksson, sem kemur inn í stað fyrrverandi stjórnarformanns, Eva Pandora Baldursdóttir, Matthías Páll Imsland, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir og Valdimar Halldórsson. Orri var kosinn stjórnarformaður Isavia á stjórnarfundi sem haldinn var að loknum aðalfundi. Matthías var sömuleiðis kosinn varaformaður stjórnar.
ÁRS- OG SAMFÉLAGSSKÝRSLUVEFUR OPNAÐUR
Á aðalfundinum var einnig kynntur nýr vefur Isavia þar sem finna má samfélgasskýrslu félagsins. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er gefin út einvörðungu á rafrænu formi og ekki á prenti. Þar er að finna ársreikning Isavia og helstu upplýsingar um rekstur félagsins. Þar eru einnig áherslur í umhverfis- og samfélagsmálum tíundaðar, árangur síðasta árs og sú stefna sem er mörkuð fyrir það næsta. Hægt er að fara inn á skýrsluna á www.isavia.is/arsskyrsla2018