Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Tap Sparisjóðsins í Keflavík 17 milljarðar króna
Laugardagur 4. apríl 2009 kl. 00:52

Tap Sparisjóðsins í Keflavík 17 milljarðar króna

Afkoma Sparisjóðsins í Keflavík var neikvæð um 17.042 m.kr. að teknu tilliti til tekjuskatts. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins er 7,06%. Afkoma Sparisjóðsins fyrir skatta var neikvæð um 19.064 m.kr. Tap Sparisjóðsins má fyrst og fremst rekja til eignarýrnunar vegna efnahagshrunsins og varúðarniðurfærslu á útistandandi kröfum. Að teknu tilliti til sértækra aðgerða og væntanlegs framlags ríkissjóðs samkvæmt heimild í 2. gr. laga nr. 125/2008 (Neyðarlög) gera áætlanir ráð fyrir því að í lok apríl verði eiginfjárhlutfall sjóðsins komið í 13,83%.

 
Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins
Útlánaskoðun Fjármálaeftirlisins hjá Sparisjóðnum í Keflavík fyrri hluta marsmánaðar leiddi til enn frekari niðurfærslu á útlánaeignum en drög að ársuppgjöri höfðu gert ráð fyrir. Við reikningsskilin um áramót hefur að fullu verið tekið tillit til þeirra ábendinga sem þýðir að í ársreikningi er eiginfjárhlutfall (CAD) Sparisjóðsins í Keflavík 7,06%, eins og það er skilgreint í 84. gr. laga nr. 161/2002.

Í ljósi þess að eiginfjárgrunnur Sparisjóðsins í Keflavík var samkvæmt þessu kominn undir hið lögboðna 8% hlutfall, hefur stjórn Sparisjóðsins þegar gripið til aðgerða þ.m.t. sent Fjármálaeftirlitinu greinagerð um hvaða ráðstafana verður gripið til. Vinna hefur verið lögð í að laga gjaldeyrisjöfnuð Sparisjóðsins, en með setningu reglugerðar 1130 frá 15. desember 2008 voru afleiðuviðskipti þar sem króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðlum óheimil. Afleiðing af þessari lagasetningu var að gjaldeyrisjöfnuður varð ójafn.

Aðgerðir til að bæta eiginfjárhlutfallið hafa snúist um að færa útlán á milli gjaldmiðla og hefur töluverður ávinningur náðst nú þegar sem hefur beint áhrif á eiginfjárhlufall Sparisjóðsins. Við þessar breytingar eykst eiginfjárhlutfallið um 0,92% og verður 7,98%. Sparisjóðurinn hefur einnig fengið vilyrði fyrir víkjandi láni að fjárhæð 350 milljónir sem styrkir eiginfjárgrunn sjóðsins. Þessar aðgerðir munu laga eiginfjárhlutfallið sem nemur 0,38% sem þýðir að Sparisjóðurinn nær þá 8,36% eiginfjárhlutfalli. Þessu til viðbótar hefur stjórn Sparisjóðsins í Keflavík sótt um aðstoð frá ríkinu byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008 sem sett voru í október 2008. Til viðbótar við aðgerðir stjórnar myndi eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins lagast sem nemur 5,47% ef þessi aðstoð gengi eftir, og verða 13,83%.
Gripið hefur verið til verulegra aðhaldsaðgerða í rekstri og m.a. hafa æðstu stjórnendur og verulegur hluti starfsmanna gefið eftir hluta launa sinna. Þá hefur störfum fækkað sem nemur 22 stöðugildum á síðastliðnum 12 mánuðum. Gengið verður enn lengra í aðhaldsaðgerðum á næstunni.

Helstu niðurstöður úr rekstar- og efnahagsreikningi:
• Afkoma Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2008 var neikvæð um 19.064 m.kr. fyrir skatta samanborið við 2.234 hagnað árið 2007. Tap eftir skatta nam 17.042 m.kr. samanborið við 1.890 m.kr. hagnað árið 2007
• Hreinar vaxtatekjur námu 552,6 m.kr. og jukust um 8,6% frá fyrra ári. Hreinar þjónustutekjur námu 436 m.kr. samanborið við 414,9 m.kr. árið 2007.
• Hreint rekstartap nam 9.903 m.kr. samanborið við tekjur að fjárhæð 3.904 m.kr. árið 2007. Rekstargjöld námu 2.396 m.kr. á árinu 2008 samanborið við 1.506 m.kr. árið 2007.
• Útlán til viðskiptamanna námu 84.479 m.kr. í lok árs 2008 samanborið við 62.369 m.kr. í lok árs 2007. Vaxtamunur tímabilsins var 0,6% samanborið við 1,2% á árinu 2007. Heildareignir námu 98.012 m.kr. og höfðu aukist um 4,24% á milli ára.
• Virðisrýrnun nam 6.764 m.kr. á árinu 2008 í samanburði við 164 m.kr. árið 2007. Afskriftarreikningur lána og krafna nam í árslok 2008 7,5% af útlánum og veittum ábyrgðum en var 1,6% í árslok 2007.
• Eigið fé í árslok nam 5.409 m.kr. og hefur dregist saman um 20.052 m.kr. milli ára. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins í Keflavík er 7,06%.
 
Lausafjárstaða og fjármögnun
Samningur milli sparisjóðsins og Íbúðalánasjóðs var undirritaður í mars um að sparisjóðurinn selji Íbúðalánasjóði safn skuldabréfa, að fjárhæð um 10 milljarðar króna, tryggt með veði í íbúðarhúsnæði í samræmi við heimild til slíkra kaupa skv. lögum nr. 125/2008, reglugerð nr. 1081/2008 og reglur Íbúðalánasjóðs um kaup á skuldabréfum fjármálafyrirtækja.
 
Íbúðalánasjóður greiddi 80% af uppreiknuðu virði safnsins og eftirstöðvarnar, eða 20%, er krafa sparisjóðsins á Íbúðalánasjóð sem kemur til með að verða gerð upp að 8 árum liðnum.
Samningar hafa náðst við erlenda lánadrottna en sparisjóðurinn skuldar nú tvö erlend sambankalán að fjárhæð 49 milljónir evra. Gjalddagi var á öðru láninu þann 27. mars og náðist samkomulag um að greiða hluta lánsins á gjalddaganum og framlengja hluta. Næsti stóri gjalddagi á erlendu láni er í maí 2010.

Ljóst er að fjármögnun sparisjóða verður að mestu í formi innlána næstu misserin. Skuldabréfamarkaður með bankabréf er ekki lengur fyrir hendi né millibankamarkaður með lán. Sparisjóðurinn í Keflavík hefur á síðastliðnum 10 mánuðum greitt um 15 milljarða króna af sínum skuldum til erlendra og innlendra fjármálastofnanna.

Eins og áður sagði þá hefur stjórn Sparisjóðsins í Keflavík sótt um aðstoð frá ríkinu byggt á neyðarlögunum nr. 125/2008 sem sett voru í október 2008. Til viðbótar við aðgerðir stjórnar myndi eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins lagast sem nemur 5,47% ef þessi aðstoð gengi eftir og verða 13,83%. Framlagið er um 5 milljarðar króna og styrkir lausafjárstöðuna.
 
Horfur
Mikil óvissa er um þróun og horfur á næstu misserum. Því er erfitt að spá fyrir um það með vissu hversu hátt eiginfjárhlutfall er nauðsynlegt hjá fjármálafyrirtæki til að mæta þeim erfiðleikum sem framundan eru í íslensku efnahagslífi. Sparisjóðurinn verður að teljast frekar vel í stakk búinn að því leyti. Sparisjóðurinn í Keflavík er öflug stofnun með sterka markaðshlutdeild á Suðurnesjum, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Húnaþingi. Mikill fjöldi einstaklinga skiptir við sjóðinn, en eignarhaldsfélög og stærri fyrirtæki eru í mjög litlum mæli í viðskiptamannahópnum. Mikil dreifing og fjölbreytni í hópi viðskiptamanna verður að teljast jákvæð á komandi misserum.

Áætlanir sparisjóðsins taka mið af þeim erfiðu aðstæðum sem framundan eru. Sjóðurinn stóð sterkum fótum áður en áföll dundu yfir í október og hann á því eftir talsverðan hluta eigin fjár síns og starfsemi hans hefur verið ótrufluð að mestu. Stjórn sjóðsins telur því að áætlanir séu bæði trúverðugar og líklegar til þess árangurs að geta haldið áfram þeirri starfsemi sem verið hefur til heilla fyrir viðskiptavini vítt og breitt um landið.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024