Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Tap Sparisjóðsins í Keflavík 10,6 milljarðar eftir skatta
Fimmtudagur 28. ágúst 2008 kl. 17:10

Tap Sparisjóðsins í Keflavík 10,6 milljarðar eftir skatta

- Góð eiginfjárstaða og traustur grunnrekstur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Helstu niðurstöður fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 hjá Sparisjóðnum í Keflavík er tap eftir skatta nam 10,6 milljörðum. Neikvæð þróun á hlutabréfamarkaði hafði afgerandi áhrif á niðurstöðu tímabilsins.

Hreinar vaxtatekjur námu 992 milljónum. Hreinar þjónustutekjur námu 244 milljónum. Hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 9,95 milljarða. Helstu ástæður eru þróun hlutabréfamarkaða og varúðarniðurfærsla eignasafns Sparisjóðsins vegna óhagstæðra markaðsaðstæðna. Heildareignir Sparisjóðsins í Keflavík námu 90,5 milljörðum.


Heildarútlán til viðskiptavina Sparisjóðsins námu 72 milljörðum í lok júní og hafa aukist um 9,6 milljarða frá áramótum, eða 15,46%. Innlán eru 62,34% af heildarútlánum til viðskiptamanna. Innlán hafa aukist um 15,4% frá áramótum og voru 44,9 milljarðar í lok júní. Eigið fé Sparisjóðsins í Keflavík nam 12 milljörðum þann 30. júní 2008. Eiginfjárhlutfall (CAD) Sparisjóðsins var 10,31% þann 30. júní 2008. Vaxtamunur tímabilsins var 2,15% í samanburði við 1,4% fyrir sama tímabil árið 2007 og 1,2% fyrir allt árið 2007. Sérstök virðisrýrnun útlána nam 1.212 milljónum í samanburði við 157 milljónir á sama tímabili árið 2007. Um er að ræða varúðarframlag sem endurspeglar ekki endanleg útlánatöp, heldur er ætlað að mæta hugsanlegum útlánatöpum í framtíðinni.



Nú er að ljúka fjármögnun íbúðabréfa Sparisjóðsins að verðmæti um 5 milljarða ISK í gegnum Íbúðalánasjóð.

Endurskipulagning starfseminnar hefur m.a. leitt til fækkunar starfsmanna í Sparisjóðnum um 11,2% frá áramótum eða um 17 stöðugildi. Svigrúm er til að lækka rekstrarkostnað enn frekar og sífellt er leitað leiða til hagræðingar í rekstri.

Á næstu mánuðum verður lögð áhersla á að styrkja grunnrekstur sjóðsins enn frekar.

„Samhliða grunnrekstri hefur Sparisjóðurinn í Keflavík á síðustu árum byggt afkomu sína að nokkru leyti á þróun fjármálamarkaða. Hefur það skipulag starfseminnar gefið vel af sér hingað til en undanfarna mánuði hafa hinsvegar óhagstæðar markaðsaðstæður komið verulega niður á afkomu okkar. Miklar lækkanir á mörkuðum, verðmætarýrnun og háir stýrivextir hafa skilað neikvæðri afkomu fyrstu 6 mánuðina. Þrátt fyrir þessi vonbrigði þá er grunnrekstur Sparisjóðsins í Keflavík hins vegar traustur og hafa hreinar vaxtatekjur aukist mikið milli ára. Vaxtamunur er nú um 2,15% og er afkoma grunnrekstrar, samkvæmt starfsþáttayfirliti, góð. Eiginfjárstaða Sparisjóðsins er einnig góð eins og eiginfjárhlutfall okkar (CAD hlutfall) ber með sér. Fjármögnun og lausafjárstaða Sparisjóðsins er í ágætu jafnvægi í dag, sérstaklega eftir að fjármögnun íbúðalána okkar í gegnum Íbúðalánasjóð gengur í gegn“, segir Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri í tilkynningu og bætir við: „Í ljósi breyttra aðstæðna hefur verið farið í vinnu sem felur í sér endurskipulagningu starfseminnar með það að markmiði að styrkja grunnrekstur Sparisjóðsins enn frekar. Samsetning eignasafns Sparisjóðsins verður einnig tekin til endurskoðunar.

Á síðustu misserum höfum við sameinast 3 öðrum sparisjóðum og enn eru ónýttir ýmsir möguleikar til að ná fram þeirri hagræðingu sem í slíkum sameiningum eru fólgnir.

Sparisjóðurinn stendur sterkur, þrátt fyrir það bakslag sem við finnum núna fyrir. Horfur út þetta ár eru betri og ef ytri aðstæður verða hagstæðar þá næst viðunandi rekstrarniðurstaða á síðari helmingi ársins“.