Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sýnum stuðning við nýsköpun í verki
Sunnudagur 20. janúar 2013 kl. 10:00

Sýnum stuðning við nýsköpun í verki

Í heimsóknum mínum í fyrirtæki og stofnanir í Reykjanesbæ á síðustu dögum hef ég tekið betur eftir því hvað mikill kraftur er í mörgum fyrirtækjum og sprotum nýsköpunar á svæðinu. Mörg fyrirtækjanna bíða eftir stærri verkum og menn vilja sjá verkefni lengra fram í tímann. Síðustu ár hafa verið strögl en menn segja að núna vori í þjóðfélaginu. Það bíða allir eftir kosningunum í vor og breytingum í kjölfarið.

Ég heimsótti Bryndísi Einarsdóttur skólastjóra í Bryn Ballett Akademínuna á Ásbrú. Þar má sjá hvernig alúð, smekkvísi og næmt auga fyrir gömlum hlutun hefur breytt kaldri vopnageymslu í lifandi skóla og hlýlegan vinnustað. Merkilegt að þetta fræ sem er að spíra sé eini viðurkenndi listdansskólinn á landsbyggðinni og hann er á Ásbrú. Bryn Ballett Akademían er viðurkenndur af mennta- og menningarmálaráðuneytinu til kennslu í listdansi á grunn- og framhaldsskólastigi. Þar er hægt að útskrifast sem listdansari til stúdentsprófs í samvinnu við Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Í skólanum starfar einnig forskóli fyrir yngri kynslóðina og almenn braut. Þrátt fyrir viðurkenningu ráðuneytisins hefur skólinn ekki fengið framlög frá ráðuneytinu vegna framhaldsskólastigsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í fjármálaráðuneytinu hefur skort á skilning fyrir þessari menntun hér á svæðinu og við verðum að leggjast á árarnar með skólanum og krefja ráðuneytið um jafnræði við aðra sambærilega skóla. Ég hef sagt það áður að við höfum verk að vinna fyrir Suðurnes.

Skólanámskrá BRYN tók breytingum frá og með hausti 2011 til samræmis við kröfur menntamálaráðuneytisins um kennslu í listdansi. Boðið er uppá fjölbreytt og metnaðarfullt nám við skólann, en um tvo hundruð nemendur sækja nám í listdansskólann frá þriggja ára aldri og upp úr. Listdansskólanum er skipt í fjórar námsleiðir: Klassíska listdansbraut, nútímalistdansbraut, tómstundabraut og forskóla.

Við skólann starfa sautján manns: fjármálastjóri, námsstjóri, danskennarar, aðstoðarstúlkur í verslun og fleiri auk skólastjóra sem jafnframt er ballettmeistari. Einnig heimsækja ýmsir gestakennarar skólann yfir skólaárið.

Hér er fræ sem þarf að hlúa að og þeir sem vilja efla menntun og atvinnu á Suðurnesjum sjá hér tækifæri til þess. Þar duga ekki innantóm orð um stuðning við konur í nýsköpun. Ég mun sem þingmaður, fái ég til þess stuðning, sýna það í verki að ég stend með nýsköpun og sprotum sem þarf að hlúa að. Ég mun láta verkin tala í því eins og öðru sem ég tek mér fyrir hendur.

Ásmundur Friðriksson

Sækist eftir 3ja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi 26. jan. nk..