Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sveitarfélög geti keypt til baka eignir frá Fasteign ehf.
Fimmtudagur 11. nóvember 2010 kl. 15:05

Sveitarfélög geti keypt til baka eignir frá Fasteign ehf.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og stjórnarformaður Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. segði í samtali við Víkurfréttir að fréttaflutningur af málefnum Fasteignar ehf. sé á nokkrum villigötum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hann segir að staðreyndin sé að stjórn Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. ákvað á síðasta stjórnarfundi að fá tvo rekstrarráðgjafa til að vinna að úttekt og skoðun valkosta fyrir félagið. Þessi úttekt felur í sér að skoða kosti varðandi rekstrarform félagsins, leita leiða til að lækka lánakostnað og draga úr kostnaði við rekstur félagsins.

„Vegna þessarar úttektar hefur hluta af ráðningarsamningum starfsmanna verið sagt upp, þar sem breytt rekstrarform getur leitt af sér endurskoðun ráðningarsamninga. Uppsagnir eru þó allar með fyrirvara um samþykki stjórnar. Félagið er í skilum við alla lánardrottna. Á næsta stjórnarfundi munu rekstrarráðgjafarnir kynna áfangaskýrslu sína og mun stjórn í framhaldi af því taka ákvörðun um næstu skref.

Við höfum aldrei litið á aðild að EFF sem trúarattriði, þetta er tæki sem hefur reynst hentugt að nota, sérstaklega vegna lágs byggignarkostnaðar. Nú er ólíklegt að EFF verði í byggingarframkvæmdum á næstu árum og því er mjög eðlilegt að skoða vel framtíðarhugmyndir og hafa allar leiðir opnar. Öll stjórnin er þessu sammála,“ segir Árni í samtali við Víkurfréttir.

Árni segir að einn möguleikinn sem hljóti að verða til skoðunar hjá EFF er sá að sveitarfélög kaupi eignir sem þau nota til baka. Það sé þó aðeins einn af þeim möguleikum sem ráðgjafar fyrirtækisins hljóta að leggja fram.