Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Suðurnesjamenn hafa eignast alvöru ísbúð
Föstudagur 26. ágúst 2011 kl. 15:09

Suðurnesjamenn hafa eignast alvöru ísbúð

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á söluturninum Bitanum á Iðavöllum en þar hefur eigandinn Anton Már Ólafsson komið sér upp myndalegri ísbúð sem býður upp á fjölbreytt úrval af öllu því helsta sem ísbúðir á höfuborgarsvæðinu bjóða upp á.

Anton segist hafa verið með þessa flugu í hausnum í dágóðan tíma og telur það vel geta gengið að vera með alvöru ísbúð á Suðurnesjunum. „Hér getur fjölskyldan komið og allir fá eitthvað við sitt hæfi. Við erum með gamaldagsís, súkkulaði, jarðaberja, og svo blandaðan ís en það hefur ekki verið í boði hjá okkur áður,“ sagði Anton þegar blaðamaður Víkurfrétta heimsótti Bitann.

„Það er sjálfsafgreiðsla í krapinu og ég hef reynt að stíla inn á fjölbreyttni. Við erum með gríðarlegt úrval af sælgæti og dýfum sem ekki hafa verið til hérna áður. Ég hef skynjað það að eftir þessar breytingar en við skiptum yfir í Kjörís að bæjarbúum líkar sá ís mun betur,“ Anton segist jafnframt vera ánægður með sumarið á Bitanum og hann hefur orðið var við aukinn straum ferðamanna þó þeir mættu koma í auknum mæli niður til Reykjanesbæjar.

„Viðbrögðin hafa verið frábær og jafnvel betri en ég þorði að vona. Áður var ein ísvél en nú eru komnar tvær sem og það eru sex útfærslur í boði og meðal annars svokallaður tvistur þar sem tveimur bragðtegundum er blandað saman. Suðurnesjamenn hafa því loks eignast alvöru ísbúð þar sem úrvalið er eins og best verður á kosið,“ sagði Anton að lokum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024