Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Suðurnesjafólk í topp stöðum hjá Wow air
Fimmtudagur 28. febrúar 2013 kl. 11:57

Suðurnesjafólk í topp stöðum hjá Wow air

Keflavíkurmærin Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Wow air

Keflavíkurmærin Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarforstjóri Wow air en hún gegnir um leið stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs fyrirtækisins en sviðin tvö voru nýlega sameinuð.

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að Inga Birna hafi verið hægri hönd Skúla Mogensen við rekstur fyrirtækisins. Mun hún þannig stýra stærstum hluta starfseminnar hér á landi í fjarveru Skúla sem hyggst flytja til London en gegna þó áfram stöðu forstjóra, þó hann muni hafa mikla viðveru hér á landi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Annar Suðurnesjamaður, Björn Ingi Knútsson, fyrrverandi flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli, var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs og mun hann þannig stýra stórum hluta af rekstri félagsins, m.a. því ferli að sækja um flugrekstrarleyfi.

Það er því óhætt að segja að Keflavíkur-andi svífi yfir vötnum hjá Wow því Skúli sjálfur á ættir sínar að rekja til bítlabæjarins. Anna Skúladóttir, móðir hans, ólst upp á Tjarnargötunni í Keflavík þar til hún flutti til Reykjavíkur.