Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Suðurnesin – Sílikondalur Íslands
Fimmtudagur 24. maí 2012 kl. 12:21

Suðurnesin – Sílikondalur Íslands

Global Startup Community mun standa að fyrstu Start-up Iceland ráðstefnunni þann 30. maí 2012 í menningarhúsinu Andrews á Ásbrú. Á Startup Iceland ráðstefnunni koma saman frumkvöðlar, fjárfestar og fyrirmenni hvaðanæva úr heiminum til þess að efla þróun sjálfbærra nýsköpunarvistkerfa.


Þessi alþjóðlegi atburður teflir saman frumkvöðlum, fjárfestum og fyrirmönnum frá nokkrum af heitustu nýsköpunarsamfélögum heims. Hér á Suðurnesjum þekkir Guðmundur Bjarni Sigurðsson hönnuður hjá Kosmos og Kaos vel til þess sem verður í boði á ráðstefnunni. Hann hefur unnið náið með Bala Kamallakharan, sem er indverskur fjárfestir, og stofnaði Startup Iceland. Guðmundur fór með Bala til San Fransisco fyrir nokkrum misserum m.a. til að kynna sér sambærileg verkefni þar og síðan þá hafa þeir unnið nokkuð saman. Bala vann hjá bönkunum hér heima á Íslandi fram að hruninu en síðan þá hefur hann haft ástríðu fyrir því að koma nálægt frumkvöðla- og sprotafyrirtækjum og stofnaði því Startup Iceland. Að sögn Guðmundar hefur Bala bloggað mikið um þessi málefni á síðustu misserum en ráðstefnan á Ásbrú er hugmynd sem vaknaði fyrr á þessu ári.


„Ísland er frábær staður til að hleypa af stokkunum nýjum hugmyndum og ráðstefnu til að koma af stað nýju Startup samfélagi. Ísland hefur framúrskarandi innviði, sögu um nýsköpun og frumkvöðlastarf, ungt og vel menntað fólk. Ísland er lítið, og þar af leiðandi styttri leiðir og hraðari þróun á vöru, sem er einstakur eiginleiki sem við ætlum að nota sem dæmisögur fyrir önnur samfélög á fyrstu Startup Iceland ráðstefnu okkar,“ segir stofnandi Startup Iceland, Bala Kamallakharan, um verkefnið.

Guðmundur Bjarni segir að ráðstefnan verði einstakur viðburður þar sem frumkvöðlar, fjárfestar og stjórnmálamenn, hvaðanæva úr heiminum, koma saman til þess að þróa frjósamt umhverfi fyrir sprotafyrirtæki. Þá verður umhverfi og samspil sprotafyrirtækja, fjárfesta, stoðfyrirtækja og opinberra aðila skoðað sem heild, sem og þættir sem stuðla að eflingu og sjálfbærni þess. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þá munum við fjalla um árangur og erfiðleika íslenskra frumkvöðla og mikilvægi styrkja og fjárhagslegra tækifæra í nýsköpun. Fjallað verður um nýsköpun í orkunýtingu og nýtingu sjálfbærra orkulinda. Á ráðstefnunni verður einnig fjallað um hið nýja frumkvöðlaendurreisnartímabil hér á landi. Við munum skoða nýtingu á samfélagsmiðlum í uppbyggingu vörumerkja og hvernig mismunandi svæði á Íslandi geta búið til frjósaman jarðveg fyrir kraftmikla frumkvöðla,“ segir Guðmundur Bjarni í samtali við Víkurfréttir.

Guðmundur Bjarni segir að á ráðstefnunni verði leitast við að svara spurningunni „Hvernig sköpum við frjóan jarðveg fyrir nýsköpun á Suðurnesjum?“ en þeir sem standa að ráðstefnunni horfa til þess að Suðurnes séu „Sílikondalur Íslands“. Hér séu mikil tækifæri og jarðvegur til að skapa fjölda starfa. Spurningunni „Hvernig sköpum við 1000 ný störf á Suðurnesjum?“ verður því velt upp og þegar hún er lögð fyrir Guðmund segir hann: „Við munum vonandi finna svarið við henni á ráðstefnunni“.

Aðstandendur Startup Iceland segja að Ísland hafi mikla nýsköpunar- og frumkvöðlamenningu og er í stakk búið til að verða áhrifamikill þátttakandi í nýsköpun á heimsvísu.

Startup Iceland ráðstefnan leitast við að efla alþjóðleg áhrif Íslands og tengja frumkvöðla og aðra aðila í nýsköpun til að efla sjálfbæra efnahagslega (vistkerfa) þróun á heimsvísu.

Þátttakendur í Startup Iceland koma frá Íslandi, Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Bretlandi, Asíu, Skandinavíu og Suður-Afríku. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun opna ráðstefnuna með setningarávarpi. Dagskráin er þétt á þessari eins dags ráðstefnu, efni sem verða rædd eru t.d. árangur og erfiðleikar íslenskra frumkvöðla, hvernig skal búa til staðbundna samninga til að hefja árangursríka frumkvöðlastefnu innan sveitarfélaga, mikilvægi styrkja og fjárhagslegra tækifæra í nýsköpun, nýsköpun í orkunýtingu og nýting sjálfbærra orkulinda, hið nýja frumkvöðlaendurreisnartímabil og nýting á samfélagsfrumkvöðlum til að knýja áfram vörumerki.

Auk Startup Iceland ráðstefnunnar 30. maí 2012, munu þátttakendur hafa tækifæri til að taka þátt í Hackathon samkeppni þann 29. maí 2012 í Háskólanum í Reykjavík sem og fundaröð með leiðandi áhrifaaðilum í Startup samfélaginu, sem og ævintýravettvangsferð og spennandi tengiliðatækifærum.

Þeir sem þekkja til frumkvöðlastarfsins sem unnið hefur verið á Ásbrú vita að þar hefur verið unnið eftir svokölluðu „Incubator“-módeli í frumkvöðlasetrinu í Eldey. Á ráðstefnunni verður hins vegar skoðuð leið í frumkvöðlastarfi sem kallast „Accelerator“ en vilji er til að vinna jafnframt eftir þeirri leið á Ásbrú en þar koma fjárfestar að frumkvöðla- og sprotaverkefnum og fjárfesta í góðum hugmyndum.
Guðmundur Bjarni segir að tilgangurinn með ráðstefnunni sé fyrst og fremst að fá fólk til að gera eitthvað. Það sé svo margt hægt að gera til að skapa ný störf og bendir hann á eigið fyrirtæki, Kosmos og Kaos. Hann hafi stofnað það fyrir tveimur árum. Þá hafi hann verið einn með tvær hendur tómar. Í dag séu starfsmennirnir orðnir átta og stefnir í frekari fjölgun starfa. „Það er ýmislegt hægt að gera og meira að segja í Keflavík,“ segir Guðmundur og brosir. Hann nýtti sér netið til að koma sér og sínu fyrirtæki á framfæri. Hann gerði flotta vefsíðu og kom henni á framfæri út um allan heim og þannig fór boltinn að rúlla.

Hann segir ráðstefnuna vera fyrir alla. Það verði reynt að kveikja í fólki, ef svo má að orði komast, þ.e. fá það til að byrja að gera góða hluti og fá það til að koma og hlusta á þetta fólk sem heldur fyrirlestra og hefur verið að ná góðum árangri í því sem það er að gera.

www.startupIceland.com.