Suðupottur tækifæra til framtíðar í Grænum iðngarði
Iceland Eco Business Park, IEBP, eða Græni iðngarðurinn hefur það að markmiði að byggja upp fjölbreytta og græna iðnaðarstarfsemi í húsnæði sem áður var ætlað undir álver Norðuráls á iðnaðarsvæðinu í Bergvík og Helguvík. Nú þegar hefur verið gengið frá samningum við fyrsta fyrirtækið sem mun hefja starfsemi í húsunum og næstu samningar verða frágengnir á næstu vikum. Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri IEBP, segir í samtali við Víkurfréttir að áætlanir geri ráð fyrir að afhenda fyrstu stóru einingarnar í húsunum strax í sumar.
Víkurfréttir settust niður með Kjartani á dögunum þar sem farið var yfir þá vinnu sem þegar hefur átt sér stað og hvað sé í pípunum. Í ljósi stöðunnar sem nú er uppi í Grindavík, þar sem fjöldi fyrirtækja, m.a. í matvælaframleiðslu, þarf hugsanlega að finna sér nýtt atvinnuhúsnæði til lengri eða skemmri tíma, lék okkur forvitni á að vita hvort grindvísku fyrirtækin ættu heima í græna iðngarðinum.
„Við erum að horfa til lengri tíma á matvælaiðnaðinn í okkar verkefni. Við vitum að þetta er viðkvæm staða og fyrirtæki úr Grindavík eru að leita sér að aðstöðu á nýjum stað. Nokkur fyrirtæki hafa rætt við okkur og þá er ljóst aði hægt er að útbúa flottar aðstæður fyrir þessi fyrirtæki í garðinum hjá okkur,“ segir Kjartan.
Aðspurður segir hann stöðuna á verkefninu, uppbyggingu á grænni iðnaðarstarfsemi í húsnæði sem áður var ætlað undir álver Norðuráls vera góða. „Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni. Í fyrsta lagi erum við að breyta um not á þessum innviðum sem þarna eru. Við höfum farið í gegnum grunngreiningu og höfum fengið verkfræðinga og hönnuði til að skoða hvernig við getum við notað og unnið úr þeim mannvirkjum sem þarna eru. Þetta er vinna sem tekur töluverðan tíma.
Samhliða þessu höfum við verið að ræða við aðila og það er ofboðslegur áhugi fyrir þessu. Við erum að finna áhuga frá aðilum sem vilja koma þarna inn en einnig frá samfélaginu fyrir þessari breyttu stefnu á uppbyggingu á þessum reit.“
Tími stóriðju í Helguvík er liðinn
Kjartan er ekkert að skafa af skoðunum sínum varðandi uppbygginguna í Helguvík.
„Ég segi það hiklaust, að tími stóriðju í Helguvík er liðinn. Það voru ákveðin tækifæri á sínum tíma og sem ég tel að hafi verið réttar ákvarðanir þegar þær voru teknar en svo þróast málin því miður með þeim hætti sem þau gerðu og hafa gert á undanförnum árum. Það er önnur stemmning í dag og það gefst ekki tækifæri til að reyna þetta aftur,“ segir Kjartan og vísar til þess að síðasta verkefni fór frekar illa. „Og samfélagið reis upp á móti slíkri uppbyggingu og vildi ekki sjá neitt svona aftur. Úr varð að það þarf að finna eitthvað annað að gera við þetta svæði sem er gríðarlega verðmætt, eitthvað annað sem gefur ekki frá sér mikla mengun.“
Klæjað í puttana að vinna með yfirburði þessa svæðis
Kjartan hefur í mörg ár verið að skoða möguleika svæðisins í Helguvík og hafði verið byrjaður á því áður en hann byrjaði á sínum tíma hjá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, KADECO.
„Þegar ég var í háskólanámi var ég kominn með ákveðnar hugmyndir um hvað hægt væri að gera hérna og hef verið að vinna með þær pælingar alla tíð síðan. Eftir að ég hætti hjá KADECO hefur mig klæjað í puttana að halda áfram að vinna með samkeppnislega yfirburði þessa svæðis, nýta flugvöllinn betur og horfa á styrkleika þeirra fyrirtækja sem voru hérna fyrir, iðnaðinn í landinu og allt það sem við höfum. Þá erum við með þekkingu Þórs Sigfússonar sem hefur verið að byggja upp klasastarfsemi á heimsmælikvarða. Ég held að margir átti sig ekki á því hvað hann hefur byggt upp flott verkefni. Hugmyndir sem hann hefur um fullnýtingu á fiski, þar sem hann talar um 100% fisk, þar sem markmiðið er að það verði ekkert hrat og engu hent. Það verði bara til hliðarafurðir sem nýtist í að skapa meiri verðmæti. Við erum farin að sjá fyrirtæki á Íslandi sem eru jafnvel verðmætari en sjávarútvegsfyrirtæki og eru að framleiða úr litlum hluta fisksins, hráefni sem áður var hent,“ segir Kjartan.
Sameina þekkingu og krafta
Kjartan segir þekkingu sína að markaðssetja þetta svæði og að vinna með stórar fasteignir og búta þær niður og reyna að koma nýtingu í þær og þekkingu Þórs varðandi klasauppbyggingu og hringrásarhugsun vera skemmtilegt tækifæri í að blanda þessu saman. „Við höfum alla tíð unnið vel saman í þessu og það er algjör samhljómur í okkar sýn. Þá erum við komin með öfluga fjárfesta með okkur að kaupunum, sem skemmtilegt er að segja frá að eru líka að horfa á þetta strategískt. Þau eru ekki bara að koma að þessu sem fasteignaverkefni. Fasteignaverkefnið er fínt og öll sem komu inn í það hafa áhuga á þessum samfélagsvinkli. Það eru tækifæri með þessum fjárfestingum að koma í gang hlutum sem munu hafa gríðarleg áhrif á samfélagið hérna, byggja upp þekkingu og skapa tækifæri fyrir fólk með víðtæka þekkingu og reynslu. Þar með talið fólk með fjölbreytta menntun, sem öðlast þá ný tækifæri til að starfa hérna og búa – og jafnvel að búa til verkefni sem byggir á samkeppnisyfirburðum Íslands varðandi hreina náttúru og hreina orku, hrein aðföng úr sjónum eða hvað það er, hugvit og þekkingu og búa til afurðir sem geta fengið mjög mikinn alþjóðlegan fókus,“ segir Kjartan.
Hvernig hafið þið verið að vinna verkefnið?
„Við byrjuðum á að setja okkur ramma um það sem við vildum ekki. Þar með höfum við filterað út allan mengandi iðnað. Við erum ekki með fókus á þannig iðnað í okkar verkefni. Við heyrum líka frá sveitarfélögunum að það er vilji til að breyta til og horfa á ný verkefni út frá þessu. Ramminn er samt víður og það er margt sem passar innan hans.
Í okkar höndum liggur fyrir að búa til bestu blönduna þar sem við erum að vinna með mögulegar hliðarafurðir hjá einu fyrirtæki þannig að annað geti komið að og gert verðmæti úr því. Fyrirtækin sem við höfum verið að ræða við falla öll innan þessa ramma. Þau eru hrein og græn, eru í matvælaiðnaði, eru í ræktun, eru í framleiðslu á matvælum, eru í fiskeldi, í lyfjageiranum, framleiða lyfjatengdar afurðir og það er alveg frábært að finna hvað áhuginn hjá þessum aðilum er mikill.
Þegar við verðum búin að landa fyrstu póstunum þá hafa þeir gríðarleg áhrif á það sem á eftir kemur. Það er þá líklegra að hingað komi fyrirtæki sem taki við þeim hliðarafurðum sem verða til og vinni áfram úr því.“
Hreint og grænt
Kjartan segir að allt það sem þau eru að vinna með núna er hreint og grænt. „Við erum búin að ræða við fimmtíu til sextíu aðila og það eru fimm til sex aðilar framarlega í pípunum hjá okkur. Við erum búin að ganga frá samningi við fyrsta aðilann og erum á næstum vikum að ganga frá samningum við aðra tvo og jafnvel þrjá.“
Græni iðngarðurinn hefur ekki átt langan aðdraganda. „Tilboðinu okkar í byggingarnar var tekið í byrjun síðasta árs. Endanlegir samningar voru ekki frágengnir fyrr en í byrjun sumars. Fyrr en þá gátum við ekki farið að ræða að neinni alvöru við aðila um uppbyggingu. Viðræður þar sem fyrirtæki eru að fara að byggja upp nýjan iðnað eða flytja sína starfsemi taka tíma.
Síðan hefur verið í gangi vinna er lýtur að hönnun og því að greina hvað er til staðar og með hvaða hætti við getum nýtt þessa innviði. Sú vinna hefur tekið þennan tíma sem liðinn er síðan við fengum þetta af fullu í okkar hendur.“
Finnst þér verkefnið hafa þróast hraðar en þið áttuð von á?
„Ég held að þetta sé bara nokkurn veginn á þeirri áætlun sem við gerðum ráð fyrir og þeim væntingum sem við höfðum. Við vorum með tímapunkt í kringum áramótin að vera búin að koma fyrstu aðilunum í gang. Við erum nokkurn veginn á þeirri línu. Við erum með mikið af spennandi málum sem við erum að vinna í. Við erum að byggja upp fyrirtækið og stækka okkar teymi. Það breytir því ekki að við förum að fara inn í þann fasa að hefja framkvæmdir af fullum gangi og það er mikið undir á þessu ári. Við erum jafnvel að tala um að afhenda fyrstu stóru einingarnar í sumar. Erum m.a. núna að auglýsa eftir og ráða inn nýjan verkefnastjóra í gríðarlega spennandi starf tengt framkvæmdum og uppbyggingu“
Í samræmi við okkar væntingar
Nokkrar framkvæmdir hafa þegar verið í gangi en iðnaðarmenn fara að mæta á svæðið á, af fullum krafti á næstu vikum og Kjartan segir að það sé auðveldara aðgengi að þeim núna en oft áður. Þá sé verið að skoða aðföng. „Við erum að koma inn á markaðinn á góðum tíma og getum unnið mjög hratt.
Áætlunin hingað til er í samræmi við okkar væntingar og ég hef þá tilfinningu að um leið og við erum búin að taka inn þá fyrstu muni þetta gerast miklu hraðar en við vorum að horfa á í byrjun.“
Húsakosturinn er 25.000 fermetrar að grunnfleti. „Við erum að tala um að ná allavega 35.000 fermetrum út úr þessum byggingum sem eru þarna og þá erum við með stóra lóð sem er að miklu leyti tilbúin til uppbyggingar sem við sjáum fyrir okkur að hægt sé að nýta og stækka með tímanum.
Skálarnir eru um fimmtán metra háir við útvegg. Ef við skiptum því í tvennt þá eru sjö metrar gríðarlega góð iðnaðarlofthæð. Góðar iðnaðarskemmur eru fjórir til sjö metrar við útvegg.
Við erum með hugmyndir strax um að setja milliloft í byggingarnar. Við erum að stilla það af í fimm metrum og eigum þá eftir um níu metra fyrir ofan. Hugmyndin er að setja annað fullberandi iðnaðargólf fyrir ofan. Það eru mikil tækifæri í þessu og strúktúrnum sem er þarna. Það átti að vera brúarkrani í allri byggingunni þegar hún var hönnuð fyrir álver og allt burðarvirkið sem honum tengist nýtist okkur til að byggja milliloft og það er eitt af því sem verkfræðingarnir hafa verið að skoða. Burðurinn er miklu meiri en við erum að setja á þetta. Það er allt þarna sem mun nýtast okkur. Við erum ekki að rífa mikið en erum að fara að byggja áfram á það sem fyrir er.
Kosturinn við þetta er að við getum unnið hraðar með fyrirtækjum að koma sér inn. Það er styttri tími frá þeirra ákvarðanatöku og þar til þaur eru komin í rekstur og geta skaffað sér allan þann búnað sem þarf. Framkvæmdatíminn okkar er ekki vandamálið. Við getum verið að stytta ferilinn hjá fyrirtæki sem er að fara inn í þúsundir fermetra um jafnvel tvö ár. Þá er miðað við að fyrirtæki þurfi að sækja um lóð, byrja að grafa og byggja og komast á það stig sem skálarnir eru í dag,“ segir Kjartan.
Með flotta hönnuði í verkefninu
„Við erum með gríðarlega flotta hönnuði með okkur og höfum verið að ganga mjög langt í að hanna í tengslum við viðræðurnar við þau fyrirtæki sem eru að koma inn. Við búum til myndir og útlitsteikningar af starfseminni. Við gerum þrívíðar myndir til að sýna hvernig þetta getur litið út. Því hefur verið vel tekið. Við erum með hönnuði sem hafa lagt sig mikið fram um að skilja líka ferlana og starfsemina sem er að koma inn, þannig að hægt sé að skipuleggja flæðið á réttan hátt. Á sama tíma erum við að reyna að gera þetta útlitslega spennandi á hagkvæman hátt fjárhagslega. Arkitektum klæjar alveg gríðarlega í puttana að vinna með þetta húsnæði. Öll þessi steypa og stál sem er þarna. Það kostaði mikið að gera þetta sem búið er að gera og við viljum bera virðingu fyrir því og gera sem mest virði úr þeirri vinnu sem þegar hefur átt sér stað. Við viljum líka að upplifun fólks verði skemmtileg í þessu umhverfi sem var hugsað fyrir annað en það er í dag. Fyrirtæki sem koma til okkar geta strax tekið inn í sitt kolefnisbókhald að þau eru að spara mörg tonn af kolefni með því að nýta þann strúktúr sem þegar er til staðar í skálunum og vera hjá okkur.“
Græni iðngarðurinn er með rétt til að nýta bæði jarðsjó og grunnvatn sem er til staðar á svæðinu. Nú er verið að gera rannsóknir á magni og gæðum vatns á svæðinu. Þarna eru líka vatnslagnir sem eru í rekstri hjá HS Veitum, bæði heitt og kalt vatn sem hefur verið tengt inn í fyrsta húsið. „Það er nægt rafmagn til að koma hefðbundinni iðnaðarstarfsemi í gang í byrjun en það er ekki nægilegt rafmagn fyrir stórnotendur. Aðstæður á markaði eru þannig að það er of lítið framboð og það er eitt af því sem þarf klárlega að horfa til, að auka framboð á raforku. Við viljum nota orku til að búa til umhverfisvænar og hreinar vörur,“ segir Kjartan.
Fyrirtæki í vaxtarfasa
Flest fyrirtækin sem koma þarna inn í Græna iðngarðinn munu verða í vaxtarfasa. „Við horfum til þess að þarna verði bæði ný fyrirtæki og einnig fyrirtæki sem eru með stóran rekstur fyrir en hafi áhuga á að stækka og bæta við sig. Hugmyndafræðin gengur líka út á að búa til aðstæður þar sem frumkvöðlar geta fengið rými, hvort sem það er bara skrifstofuaðstaða eða framleiðslu- og rannsóknaraðstaða. Þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref geti haft þarna aðstöðu.
Við höfum verið að ræða við þekkingarstofnanir eins og Háskóla Íslands að koma með okkur inn í það og búa til grundvöll þannig að þekking á ákveðnu sviði geti þróast þarna, bæði í rannsóknum og atvinnuuppbyggingu.
Hugmyndafræði okkar gengur líka út á þennan samfélagslega vinkil, að búa til stað þar sem fólk getur komið og einnig að þeir sem ekki endilega eru tengdir þessum græna iðnaði geti komið og fengið þarna skrifstofuaðstöðu og verið í nálægð við aðra sem eru að starfa og dvelja þarna. Við sjáum þarna mikinn suðupott tækifæra til framtíðar,“ segir Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Iceland Eco Business Park, Græna iðngarðsins, í samtali við Víkurfréttir.