Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 21. janúar 1999 kl. 21:58

SUÐRÆN PARADÍS NÚTÍMALEG HÖNNUN

„Það er búinn að vera spennandi tími að fylgjast með uppbyggingunni á svæðinu og það verður sannkölluð bylting í allri aðstöðu þegar við opnum nýja baðstaðinn í vor“, sagði Magnea Guðmundsdóttir markaðsstjóri Bláa Lónsins hf. í samtali við Víkurfréttir. Nú standa yfir framkvæmdir við byggingu baðstaðar þar sem fara saman samspil náttúru og nútímalegrar hönnunar. Vetrargarður og frábært úrsýni Nýja bað- og búningsaðstaðan mun rúma 700 gesti. Aðkoman að svæðinu er sérstök. Frá bílastæðum er gengið í gegnum 200 metra langa hrauntröð með 4-5 metra háum veggjum. Þá er komið inn í vítt og bjart fordyri. Þar er ferðamannaverslun ásamt fullkominni búnings- og baðaðstöðu á tveimur hæðum. Þar eru allir fataskápar læstir og hægt að ganga beint út í baðlónið. Í húsinu er einnig Vetrargarður þar sem verður veitingastaður. Þaðan er útsýni í gegnum glervegg yfir 5.000 fermetra baðsvæði. Svört strönd og jarðhitagufubað Á nýja baðstaðnum geta gestir synt inn í hraunhella og farið þar í jarðhitagufubað, legið í sólbaði á fallegri strönd með svörtum sandi eða bara skellt sér í sérstaka kísilpotta. Nýji baðstaðurinn er í raun suðræn paradís í miðju úfnu hrauni og vel varin hraunveggjum á allar hliðar. Baðstaðurinn er á mjög skjólsælum stað. Úfið apalhraun er nefnis Illahraun er náttúrulegur vindbrjótur og veitir skjól frá næstum öllum vindáttum, segir Magnea. Útsýni baðgesta er líka annað en á núverandi stað. Í dag hafa baðgestir orkuver hitaveitunnar fyrir augunum, en á nýja staðnum nun úfið hraunið og sjálfur Þorbjörn í allri sinni dýrð blasa við baðgestum. Þægilegur hiti allt árið Baðgestir Bláa lónsins kannast við það að botn lónsins er misjafn og hefur verið skeinuhættur. Botn nýja lónsins verður hins vegar sléttaður og hallandi og dýpi hverrgi meira en 1,4 metrar í miðju lóninu. Með tímanum mun síðan kísillinn setjast á botninn og gera hann mýkri yfirferðar. Hitastig lónsins verður 37-39°C. Með nýrri tækni verður hægt að halda lóninu í þessu hitastigi en jarðsjó verður dælt að lóninu og blandað lónsvatninu í sérstökum blöndunarbrunnum sem hafa verið sérhannaðir til verksins. Þessu hitastigi verður hægt að halda allt árið en á núverandi baðstað er hitastigið mjög breytilegt. En hvenær verður nýji baðstaðurinn tekinn í notkun? „Framkvæmdum á að ljúka í vor. Lagnavinna er nú hafin og áætlanir hafa staðist þannig að við munum opna um mánaðarmótin apríl/maí“ sagði Magnea Guðmundsdóttir að endingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024