Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Stuðlaberg býður upp á söluvernd í fasteignaviðskiptum: Trygging fyrir fasteignaseljendur
Fimmtudagur 15. febrúar 2007 kl. 15:29

Stuðlaberg býður upp á söluvernd í fasteignaviðskiptum: Trygging fyrir fasteignaseljendur

„Söluvernd VÍS kom á markað í ágúst 2006.  Viðtökur hafa verið góðar enda hér á ferð nauðsynleg trygging fyrir alla fasteignaseljendur. Söluvernd  er trygging sem seljandi fasteignar kaupir og tryggir sig þannig gagnvart göllum sem geta komið upp,“ segir Guðlaugur Guðlaugsson, fasteignasali um þessa nýjung á fasteignamarkaði.

Seljandi fasteignar ber ábyrgð á leyndum göllum í 5 ár eftir að hann hefur afhent eignina. Þetta er punktur sem fæstir seljendur vita af, flestir telja sig hólpna þegar eignin er seld. Sama má segja um kaupendur en fæstir vita að ef þeir lenda í leyndum galla  löngu eftir að eignin er keypt þá hafi þeir rétt á að krefja seljanda um bætur. „Fyrir seljanda er þetta mikill léttir að vita að ef upp kemur galli þurfi hann ekki að taka á sig mögulega stóran fjárhagslegan skell s.s. bætur og jafnvel lögfræðikostnað því VÍS sér um málið alveg frá byrjun, fer yfir kröfuna og ef um galla er að ræða þá greiðir VÍS kröfuna út til kaupanda í einu lagi. Í fæstum tilfellum þarf kaupandi að leita réttar síns fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Komi upp galli verður allt ferlið auðveldara og gengur hraðar fyrir sig auk þess sem seljandi, kaupandi og fasteignasali losna við erfið og tímafrek samskipt vegna meintra galla,“ segir Guðlaugur og bætir því við að algengustu gallar séu vegna leka á þökum, skolp og neyslulögnum og fúi í gluggum.

Áherslu þarf að leggja á að þetta er ekki eignatrygging heldur ábyrgðartrygging, það er að segja seljandi fasteignar er að tryggja sig fyrir þeim fjárútlátum sem galli kunni að hafa í för með sér. „Kaupandi má ekki skilja trygginguna þannig að eignin sé tryggð og verið sé að bæta honum alla galla, hversu smáir sem þeir eru, sem geta verið á eigninni. Aftur á móti er öruggara fyrir kaupendur að kaupa eign með Söluvernd því ef eitthvað kemur upp, þá hefur kaupandi öruggan aðila sem stendur að baki seljanda ef sækja þarf kröfu á seljandann. Eins fær kaupandi ítarlegri upplýsingar um ástand eignarinnar frá seljanda en áður hefur þekkst hér á landi. Nauðsynlegt er fyrir seljendur og kaupendur fasteigna að vita rétt sinn og gera sér grein fyrir að seljandi ber ábyrgð á þessum málum í 5 ár og því nauðsynlegt fyrir seljanda að gera þær ráðstafanir sem hægt er til að tryggja sig fyrir því sem getur gerst. Þar kemur Söluverndin inn í málið,“ segir Ásgrímur Helgi Einarsson hjá VÍS og nefndi að reynslan í Noregi væri sú að þar hafi tryggingin notið mikilla vinsælda og seldust um 75% eigna þar nú með Söluvernd.

Söluvernd er afgreidd á fasteignasölum en allar upplýsingar er hægt að fá á skrifstofu VÍS, í þjónustuveri VÍS í síma 560-5060 og á heimasíðu Söluverndar www.soluvernd.is.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024