Viðskipti

Strákar spá rosalega mikið í föt
Erlingur Helgason og bróðir hans Þorsteinn Helgason standa vaktina og sjá til þess að Suðurnesjamenn séu flottir í tauinu.
Laugardagur 10. desember 2016 kl. 11:11

Strákar spá rosalega mikið í föt

Vibes Keflavík er ný herrafataverslun við Hafnargötu

„Það er fáránlegt að búa í bæjarfélagi þar sem er engin karlmannsverslun. Þetta er auk þess áhugamálið og það er algjör snilld að gera blandað saman áhugamáli og vinnu,“ segir Erlingur Helgason sem nýlega opnaði herrafataverslunina Vibes í Keflavík. Þessi 25 ára Keflvíkingur hefur lengi fylgst með og spáð í tískunni og að eigin sögn væri hann mun betur settur í dag ef fataskápurinn hans væri örlítið minni. Hann ákvað að taka til sinna ráða og bæta úr þessu verslunarleysi og keypti húsnæði við Hafnargötu 32 í Reykjanesbæ. Með hjálp fjölskyldunnar var húsnæðið tekið í gegn frá toppi til táar svo úr varð þessi glæsilega verslun. Vibes Keflavík var opnuð í lok sumars og hafa viðtökurnar verið góðar að sögn Erlings. Hann viðurkennir að gangandi umferð á Hafnargötunni mætti hins vegar vera meiri. Fatnaðurinn höfðar meira til ungra karlmanna en þó ættu allir að gera fundið eitthvað við sitt hæfi enda eru bindi og skyrtur og allt þetta klassíska á boðstólum.


„Strákar spá rosalega mikið í fötum og það er mjög gaman af því. Þetta er orðið þannig að það er orðið erfitt fyrir mömmurnar að versla fyrir strákana sína. Þeir gera miklar kröfur, vilja vissa liti eða vissa sídd,“ segir verslunareigandinn. Erlingur telur að jólafötin í ár séu fremur hefðbundin fyrir karlpeninginn - skyrta, jakki og svartar gallabuxur. Kínakraginn á skyrtum er vinsæll og svo eru slaufur búnar að festa sig í sessi hjá yngri kynslóðinni og komnar til að vera að hans mati.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024