Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Stórsýningin Reykjanes 2009 haldin í tengslum við Ljósanótt
Fimmtudagur 19. mars 2009 kl. 11:03

Stórsýningin Reykjanes 2009 haldin í tengslum við Ljósanótt

Stórsýningin Reykjanes 2009 verður haldin í Reykjaneshöllinni dagana 4.-6. september í tengslum við 10 ára afmæli Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar. Sýningin er haldin undir yfirskriftinni „þekking, orka, tækifæri“ og þar verður kynnt öflugt atvinnulíf og þjónusta á Reykjanesi. Stefnt er að því að hún verði stærsti viðburður sinnar tegundar sem haldinn hefur verið á Reykjanesi. 

 
Markmið sýningarinnar er að kynna fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi öllu og þjónustu þeirra fyrir þeim tugþúsundum gesta sem gert er ráð fyrir að sæki Ljósanótt heim á tíu ára afmæli hátíðarinnar.
 
Sýningin verður opnuð föstudaginn 4. september og verður megináhersla lögð á dagskrá fyrir fagaðila þann daginn. Almenningur verður boðinn velkominn alla sýningardagana og verður aðgangur ókeypis. Auk kynninga á því sem helstu fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Reykjanesi hafa upp á að bjóða verða skemmtiatriði á sviði sýningarinnar í tengslum við Ljósanótt, sem og valin atriði frá sveitarfélögum á Suðurnesjum.
 
Sýningin er haldin af Reykjanesbæ sem hefur gert samstarfssamning við AP almannatengsl um skipulagningu, kynningu og framkvæmd sýningarinnar. Öflugir samstarfsaðilar úr atvinnulífinu á Reykjanesi koma einnig að sýningunni; Bláa lónið, Geysir Green Energy, Háskólavellir, Hitaveita Suðurnesja, KADECO – Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Keilir, Norðurál og Sparisjóðurinn í Keflavík.
 
„Það er afar spennandi að hleypa þessu verkefni af stokkunum. Framundan er mikil uppbygging á svæðinu og sýningin Reykjanes 2009 verður góður vettvangur til að koma því á framfæri. Hér veitum við fyrirtækjum og stofnunum á öllu Reykjanessvæðinu og víðar einstakt tækifæri til að taka á móti þeim góða hópi gesta sem ávallt sækir Ljósanótt heim og kynna fyrir þeim kröftugt og fjölbreytt atvinnu- og mannlíf á Reykjanesi. Ég er þess fullviss að þessi viðburður verði lyftistöng fyrir atvinnulífið á svæðinu og spennandi viðbót við tíu ára afmæli Ljósanætur,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
 
Innan skamms verður vefsvæði sýningarinnar opnað á slóðinni www.reykjanes2009.is. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024