Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

Stjórnvöld skapa eftirsóknarvert umhverfi fyrir gagnaversiðnaðinn á Íslandi
Þriðjudagur 18. október 2016 kl. 10:55

Stjórnvöld skapa eftirsóknarvert umhverfi fyrir gagnaversiðnaðinn á Íslandi

— jákvætt viðhorf almennings gagnvart iðnaðinum

Samtök iðnaðarins og Samtök gagnavera (DCI) fagna því að náðst hafi að samþykkja á síðasta degi Alþingis lög sem gjörbreyta munu samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að gagnaversiðnaðinum og geta þannig haft mjög jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið á komandi árum.

Um er að ræða eitt af helstu hagsmunamálum íslensks gagnaversiðnaðar á Íslandi undanfarin fimm ár. Það er því mikið fagnaðarefni nú þegar hefur tekist að eyða þeirri óvissu sem ríkt hefur um skyldur viðskiptavina gagnavera til að setja upp fasta starfsstöð hér á landi en til þessa hefur skort á skýrari skilgreiningu á hugtakinu „föst starfsstöð“ í íslenskum lögum. Úr þessu hefur nú verið bætt með nýsamþykktu frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir gegn skattsvikum o.fl. en mikil og góð umræða átti sér stað innan efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um málið á meðan það var í meðförum nefndarinnar. Frumvarpið var samþykkt með breiðri samstöðu allra flokka sem sýnir þá áherslu sem allir flokkar á Alþingi leggja á framgang og mikilvægi frekari uppbyggingu gagnaversiðnaðar í landinu.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, segir þessa breytingu gríðarlega mikilvæga fyrir gagnaversiðnaðinn hér á landi. „Gagnaversiðnaðurinn á Íslandi er í örum vexti og því mikilvægt að allar leikreglur séu skýrar. Samkeppnin er mikil og við viljum fá til landsins stór alþjóðleg fyrirtæki sem sjá hag sinn í því að vista gögn sín hér. Þetta er því framfaraskref. Þessi iðnaður hefur mjög jákvæð áhrif á samfélagið enda umhverfisvænn og sjálfbær iðnaður á sviði þekkingar og hugvits. Ísland hefur hingað til skorað hátt sem staðarval fyrir gagnaver í heiminum, meðal annars vegna vinds, kalds lofts og grænnar orku. Þessi lagabreyting styrkir stöðu Íslands enn frekar í samkeppni við önnur lönd.“

Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, tekur undir með Almari. „Við sjáum það í nýrri könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Samtök gagnavera í síðustu viku að 70% almennings eru mjög og fremur hlynnt því að stjórnvöld skapi eftirsóknarvert rekstrarumhverfi fyrir gagnaver á Íslandi. Með lagabreytingunni hefur nú verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um lagalegt umhverfi þeirra sem kjósa að nýta okkar þjónustu. Íslensk gagnaver geta því haldið ótrauð áfram að byggja upp gagnaversiðnaðinn með því að hvetja fleiri alþjóðafyrirtæki til að færa sína gagnavinnslu til landsins. Þessi lagasetning getur því skipt umtalsvert miklu máli þegar erlend fyrirtæki eru að ákveða hvort þau eigi að vinna gögn sín á Íslandi eða annars staðar í heiminum.“
 

Public deli
Public deli