Stefnt að stofnun nýs flugfélags
Stefnt er að því að hefja rekstur nýs flugfélags á Íslandi innan skamms. Undirbúningur að stofnun þess hefur staðið á þriðja ár. Reiknað er með að nýja flugfélagið fljúgi daglega til Lundúna og Kaupmannahafnar og búið er að ganga frá leigu á flugvél.Samkvæmt heimildum Fréttastofu Sjónvarps hefur verið gengið frá samningum við þjónustufyrirtækið Service air á Standsted flugvelli í Lundúnum um þjónustu við félagið þar. Á Kastrup flugvelli hefur verið samið við SAS um þjónustu, og í Keflavík við Iceland Groundservice, IGS. Búið er að ganga frá leigu á Boeing 737 þotu frá enska flugrekandanum Astraeus og verða flugstjórar vélarinnar enskir, en flugfreyjur og þjónar frá Íslandi. Vélin getur flutt 148 farþega. Samkvæmt því sem næst verður komist ætlar flugfélagið nýja, aðeins að fljúga til þessara tveggja borga í Evrópu. Reiknað er með að flogið verði einu sinni á dag, til hvorrar borgar fyrir sig; fyrir hádegi til Kaupmannahafnar og eftir hádegi til Lundúna. Ekki fæst uppgefið hvaða fjárfestar standa að baki nýja félaginu. En það verður svokallað lágjaldaflugfélag með lítilli yfirbyggingu, en samið hefur verið við stóran alhliða ferðaheildsala, sem starfar á heimsvísu, um dreifingu og sölu erlendis. En með því móti geta farþegar komist til annarra áfangastaða með öðrum flugfélögum, bæði þeir sem hyggjast koma til Íslands og frá. Félagið stefnir að því, að bjóða alhliða ferðaþjónustu, segir á vef RÚV.