Stefna að opnun í Reykjanesbæ
Skyndibitastaðurinn Quiznos hefur hug á því að opna útibú í Reykjanesbæ og auglýsir nú eftir aðilum til þess að taka við rekstrarleyfi á svæðinu.
Hjónin Hjörtur Aðalsteinsson og Auður Jacobsen eru eigendur Quiznos en keðjan hóf göngu sína árið 1981 í Bandaríkjunum og var stofnað af Chef Jimmy.
„Við rekum tvo staði í Reykjavík og erum að opna þann þriðja í Kópavogi. Nú stefnum við að því að opna í Reykjanesbæ, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Vestmannaeyjum og Ísafirði,“ sagði Hjörtur í samtali við Víkurfréttir.
„Þeir sem hug hafa á því að taka að sér rekstur staðarins fá alla nauðsynlega þjálfun hjá okkur og því er reynsla ekki skilyrði,“ sagði Hjörtur sem keypti Quiznos fyrir tveimur árum ásamt eiginkonu sinni Auði.
„Viðtökurnar hafa verið hreint út sagt ótrúlegar þessi tvö ár sem við höfum átt staðinn og við erum ekki í vafa um það að vel sé hægt að markaðssetja staðina víðar um landið en í Reykjavík,“ sagði Hjörtur og fannst honum spennandi að geta opnað útibú á verslunarsvæði eins og því sem reisa á við Reykjanesbraut.