Viðskipti

Starfsfólkið fær námskeið í lúxusþjónustu
Föstudagur 17. júlí 2015 kl. 11:26

Starfsfólkið fær námskeið í lúxusþjónustu

Framkvæmdum á efstu hæð Hótels Keflavík lokið.

„Nú er framkvæmdum á útliti Hótel Keflavík og Diamond Suites á efstu hæð hótelsins loksins lokið og er útkoman framar bestu vonum,“ segir Steinþór Jónsson hótelstjóri og vísar í meðfylgjandi mynd sem ljósmyndarinn Ozzo tók af hótelinu í sólsetri í Keflavík. Allt efnisval, lýsing og hönnun hótelsins hefur alfarið verið í höndum hótelstjórans Steinþórs sem leitar jafnan eftir góðum hugmyndum í ferðum erlendis, hjá eigin starfsmönnum og tugum iðnaðarmanna sem hann segir hafa staðið sig einstaklega vel síðustu tvö ár við framkvæmdina að eigin sögn.

Stórbrotið úsýni yfir Keflavíkina

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Á efstu hæðinni má sjá útlitið á Diamond Suites, fyrsta 5 stjörnu lúxushóteli landsins, útilýsingu og nýja heita potta sem eru vel staðsettir með stórbrotið útsýni yfir Keflavíkina, Reykjanesið og Bláa Lónið. Við pottana er komið mjög fullkomið hljóðkerfi og sér arineldur verður við hvorn pottinn. Stærsta svítan er 260 fermetra og mun bjóða uppá þessar einkasvalir, lúxusbaðkör, ljós, hljóðkerfi og húsbúnað frá fremstu hönnuðum heims,“ segir Steinþór og bætir við að til að gestir Diamonds Suites geti notið útsýnisins enn betur yfir Keflavík verði þjónustustigið með því besta sem þekkist. Veitingar KEF restaurant og líkamsræktaraðstaða Lífstíls verði í boði allan sólarhringinn fyrir gesti sem gista á þessum lúxus svítum og munu starfsmenn hótelsins fara í kennslu strax í haust sem er hugsuð fyrir starfsmenn fimm stjörnu hótela. Að auki verði starfsfólki boðið á námskeið í almennri þjónustu, förðun og hárgreiðslu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Steinþór.

Allra skemmtilegasta viðbótin hingað til

Öll rými Diamond Suites hafa nú verið tekin í gagnið en lúxusbúnaður og fimm stjörnu þjónusta verður komin á fullt síðar í vetur. Gegnheilar hurðar úr Eik frá TSA í Njarðvík eru komnar í notkun með allra nýjasta hurðarstýrikerfi Ving Card, sem er stærsti framleiðandi heims á því sviði, en þeirra nýjasta afurð fyrir lúxushótel, Allure, var fyrst sett upp í heiminum á Diamond Suites. Gólf hafa verið flísalögð með Versace flísum og eru stigagangar nú í sömu vinnslu. „Eftir tæpa 30 ára uppbyggingu hótelsins þá er Diamond Suites allra skemmtilegasta viðbótin hingað til og mjög spennandi að vera fyrst til að bjóða uppá alvöru lúxusgistingu á hóteli hér á landi. Á þessu stigi sér maður að rýmið og herbergin standast samanburð við það allra besta og þá er bara þetta nýja þjónustustig sem við verðum að sanna okkur með. Ég held að það takist líka vel með okkar góða starfsfólki,“ segir Steinþór.

Herbergjanýting oft yfir 100%

Eftir langbesta vetur í sögu hótelsins þar sem nýting var yfir 90% þá segir Steinþór nýtinguna í sumar alveg 100% og oftar en ekki vel yfir það þegar áhafnir koma inn á óreglulegum tímum hægt er að nýta herbergin tvisvar sinnum á sama sólarhringnum. Þá hefur meðalverð á gistingu hækkað töluvert samhliða auknum gæðum á herbergjum og almennri uppbyggingu. „Það er ekki spurning að sú fjárfesting er að skila sér en þessi gæði gera okkur líka auðveldra að skilgreina okkur fyrir gesti sem vilja greiða fyrir betri gæði og þjónustu. Lúxushótel hugmyndin byggir því á þessari reynslu og nýjum möguleikum til að auka tekjur án þess að stækka frekar en fjölgun herbergja er síðan næsta skref og verður að veruleika fyrr enn seinna,“ segir Steinþór að lokum.