Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fimmtudagur 11. mars 1999 kl. 22:07

STARFSEMIN EFLD

Barðsnes ehf. hefur keypt Snæfell ehf. sem m.a. rekur fiskimjölsverksmiðju í Sandgerði og nótaveiðiskipin Sólfell EA og Dagfara GK. Nýir eigendur tóku við rekstrinum á miðnætti sl. föstudagskvöld og var haldinn fundur með starfsmönnum á föstudagsmorgun. Þar kom fram að bræðslan verður áfram starfrækt í Sandgerði. Hún getur brætt 600 tonn á sólarhring og er ekki ætlunin að stækka hana frekar, heldur gera sem mest úr því sem fyrir er í Sandgerði. Þá er ætlunin að efla beinabræðslu en verksmiðjan í Sandgerði er sú eina á Suðurnesjum sem bræðir bein. Bræðslan hefur hins vegar þurft að keppa um hráefni við fyrirtæki í loðdýrafóðurframleiðslu. Fyrirtækið mun fyrst um sinn aðeins gera út Sólfell EA þar sem Dagfari hefur ekki fullnægjandi haffærniskírteini. Þá liggur fyrir að skipin fái nýtt nafn en skip Síldarvinnslunnar í Neskaupsstað, sem á Barðsnes ehf. með KEA og fleiri aðilum, bera öll nöfn sem byrja á upphafsstafnum „B“. Þannig á Sólfell EA að fá nafnið Blængur og í alvöru er talað um að Dagfari GK fái nafnið Búbót! Starfsmenn Barðsness ehf. í Sandgerði eru 15 og voru þeir allir leystir út með óbrjótandi kaffibrúsum og forláta sjónaukum þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum. Á hverju nótaskipi eru einnig 14-15 menn í áhöfn. Rekstrarstjóri Barðsness ehf. í Sandgerði er Björn Stefánsson. Hann er lengst til hægri á myndinni hér að ofan ásamt fulltrúum nýrra eigenda sem kynntu sér starfsemi verksmiðjunnar í Sandgerði sl. föstudagsmorgun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024