Stakkur lífnet með einkaleyfi á Íslandi og í Evrópu
Tveir frumkvöðlar úr Njarðvík þróa björgunarbúnað. n Hlaut hæsta styrkinn úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja á síðasta ári.
Stakkur lífnet er verkefni sem fékk hæsta styrkinn við úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja á síðasta ári í flokki atvinnu og nýsköpunar. Stakkur lífnet varð til í kjölfar þess að þeir Jón Helgason og Sæmundur Heimir Guðmundsson sóttu björgunarnámskeiði í nóvember 2019. Jón var fljótur að sjá að margt mætti bæta í þeim björgunarbúnaði sem notast var við á námskeiðinu. Kennarinn hvatti þá Jón til þess að bæta búnaðinn og úr varð að þeir Jón og Sæmundur þróuðu Stakk lífnet sem þeir eru nú komnir með einkaleyfi á hér heima á Íslandi og einnig í Evrópu.
Þeir félagar, Jón og Sæmundur, töldu sig geta gert úrlausn og talsverðar endurbætur á þeim búnaði sem var notaður við leit og björgun. Til að setja upp frumgerð af Stakki lífneti ákváðu þeir að sækja um styrk þar sem þetta er óhemju tímafrekt og efnið dýrt.
„Við fengum styrk, fyrst hjá VM sem er félag vélstjóra og málmtæknimanna úr sjóði sem heitir Akkur. Þá sóttum við einnig um styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Þá byrjuðum við að þróa vöruna út frá okkar hugmyndum hvernig við töldum að best væri að leita að fólki þar sem skyggni væri takmarkað í öllum þeim vötnum, böðum og lindum sem eru á Íslandi,“ sögðu þeir félagar.
Stakkur lífnet fékk fjögurra milljóna króna styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja en verkefnið lýtur að öryggi allra þeirra sem sækja eða vinna við jarðböð og aðra staði þar sem ekki sést til botns. Verkefnið mun einfalda leit og björgun, segir í umsögn með styrkveitingunni.
Góðar móttökur í netagerðum á Suðurnesjum
Við þróun á Stakki lífneti hefur verið farið í heimsóknir og vettfangsferðir á netaverkstæðin hér á Suðurnesjum til að fá efni og afganga í þessar tilraunir. Þeir segjast hafa fengið góðar móttökur hjá netagerðarmönnum á Suðurnesjum og aðstoð við þróun á frumgerðinni á Stakki lífneti.
Jón og Sæmundur segjast hafa fengið ómetanlega aðstoð í einkaleyfaferlinu en búið er að fá einkaleyfi á Íslandi og í Evrópu. „Við keyptum aðstoð frá Árnason faktor og Einar Karl Friðriksson hefur séð um Stakk lífnet. Þar sem þeir sérhæfa sig í þessum hlutum þá hefur þetta gengið vel og það hefur verið lærdómsríkt að fara í gegnum það sem komið er.“
Þeir segja að kynningarmál á nýjum björgunarbúnaði sé langhlaup, sérstaklega þar sem búnaðurinn er einkaleyfisvarinn. Þeir félagar segja einnig að það sé búið að vera sérstakt að hafa ekki mátt sýna búnaðinn á meðan einkaleyfisferlið var í gangi. Farið hafi verið með allt eins og leyndarmál.
Stakkur lífnet hefur verið prófaður í Sundmiðstöð Njarðvíkur, Bláa lóninu og við strendur hér á Suðurnesjum. Þá kynntu þeir búnaðinn á Björgun 2022 og á landsþingi slökkviliðsstjóra sem haldið var í Reykjanesbæ. Þá eru þeir byrjaðir var að kynna búnaðinn fyrir björgunarsveitum.