Stærsta flugfélag Spánar til Íslands næsta sumar
Áætlunarflug milli Íslands og Madrídar hefur hingað til takmarkast við vikulegar ferðir yfir hásumarið en á því verður mikil breyting á næsta ári. Það er ferðavefurinn Túristi.is sem greinir frá þessu.
Þrátt fyrir að Spánn hafi um langt skeið verið einn allra vinsælasti áfangastaður íslenskra farþega þá hefur framboð á flugi héðan til höfuðborgar landsins verið af skornum skammti. Eingöngu Icelandair hefur boðið upp á áætlunarferðir þangað en þó aðeins eina ferð í viku frá lokum júní og fram til sumarloka. Næsta sumar geta þeir sem setja stefnuna á Madríd hins vegar valið úr fleiri ferðum því forsvarsmenn Iberia, stærsta flugfélags Spánar, hafa ákveðið að hefja flug hingað til lands næsta sumar. Vélar Iberia munu fljúga hingað tvisvar sinnum í viku frá miðjum júní og fram í miðjan september.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Iberia, stærsta flugfélag Spánar, býður upp á flug til Íslands og geta farþegar hér á landi bókað flug áfram til fjölda áfangastaða Iberia um heim allan en félagið mun vera það umsvifamesta í flugi milli Evrópu og S-Ameríku.
Töluverður verðmunur á lægstu fargjöldum
Ódýrustu farmiðarnir með Iberia, báðar leiðir, kosta um 28 þúsund krónur samkvæmt athugun Túrista en farið hækkar um tæpar 10 þúsund krónur ef ferðast er með farangur. Til samanburðar kostar farmiði meðIcelandair til Madrídar að lágmarki 47.915 krónur en félagið mun fjölga ferðum sínum til borgarinnar næsta sumar og fljúga þangað tvisvar í viku. Það verður því flogið samtals fjórum sinnum í viku til Madrídar frá Keflavíkurflugvelli næsta sumar sem er fjörfalt meira framboð en síðastliðið sumar.
Ein stærsta flugfélagasamsteypa Evrópu eykur umsvifin á Íslandi
Samkvæmt upplýsingum Túrista frá Iberia verða sæti fyrir 171 farþega í vélunum sem nýttar verða í flugið hingað til lands en það verður starfrækt af dótturfélagi Iberia, Iberia Express. Með Íslandsflugi Iberia hafa þrjú af þeim fjórum flugfélögum sem tilheyra samsteypunni International Airlines Group bætt Íslandi við leiðakerfi sín. British Airways er stærsta flugfélagið innan IAG og það félag fer fyrstu ferð sína hingað frá London Heathrow á sunnudaginn en þriðja félagið, Vueling, hefur síðustu ár boðið upp á áætlunarferðir hingað frá Barcelona og Róm. IAG tók nýlega yfir írska flugfélagið Air Lingus en ennþá býður það félag ekki upp á flug til Íslands.