Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Stækka stöðina um 50.000 fermetra og nær þrefalda starfsmannafjölda
    Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Mynd af vef Auðlindagarðsins.
  • Stækka stöðina um 50.000 fermetra og nær þrefalda starfsmannafjölda
    Ólafur Arnarsson framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm Iceland og Pedro Marques verkefnastjóri hjá Stolt Sea Farm.
Föstudagur 14. ágúst 2015 kl. 10:02

Stækka stöðina um 50.000 fermetra og nær þrefalda starfsmannafjölda

– Fiskeldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi

Framkvæmdir við annan áfanga fiskeldisstöðvar Stolt Sea Farm á Reykjanesi hefjast á seinni hluta næsta árs. Þá verður um 50.000 fermetrum af húsnæði bætt við þá 22.000 fermetra sem nú eru til staðar og ársframleiðslan aukin úr 600 tonnum í 2000 tonn. Samhliða framleiðsluaukningunni þarf að fjölga starfsfólki Stolt Sea Farm á Reykjanesi umtalsvert.

Ólafur Arnarsson, framkvæmdastjóri hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi, segir í samtali við Víkurfréttir að nú séu starfsmenn 20 talsins. Þeim þarf fljótlega að fjölga upp í 40-50 en þegar stöðin er fullbyggð er gert ráð fyrir að þar muni 70 starfsmenn starfa við fiskeldið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fiskeldisfyrirtækið Stolt Sea Farm Iceland, sem stofnað var árið 2012, á og rekur hátæknifiskeldi á Reykjanesi skammt frá jarðvarmaveri HS Orku. Fyrirtækið er í eigu spænska fyrirtækisins Stolt Sea Farm.

Fiskeldi Stolt Sea Farm nýtir kælisjó frá Reykjanesvirkjun og blandar volga sjóinn með síuðum köldum borholusjó og fær við það eldissjó við kjörhitastig fisksins. Tandurhreinn sjór við kjörhitastig eldisins árið um kring er sérstaða sem eykur öryggi og afkastagetu eldisins. Þannig hefur vaxtarhraði Senegalflúrunnar sem ræktuð er á Reykjanesi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er það þakkað stöðugu hitastigi á sjónum sem notaður er í eldinu.

Í stöðinni á Reykjanesi er alin Senegalflúra til útflutnings. Flúran er dýr vandmeðfarinn hágæðaflatfiskur sem fluttur er út óunninn. Í dag fara um 6 tonn á viku frá stöðinni á markaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

- Þið eruð í dag 20 sem starfið við stöðina. Hvernig störf eru þetta?

„Þetta eru mjög fjölbreytt störf. Við erum með fólk í seiðaeldinu sem tekur á móti seyðunum þegar þau koma frá Spáni með flugi. Það fólk hugsar um seiðin þar til þau fara í áframeldi. Þar taka aðrir starfsmenn við og þannig er fisknum fylgt í gegnum eldið þar til hann fer til slátrunar og á disk neytenda erlendis,“ segir Ólafur.

Eldi Senegalflúrunnar tekur um 15 mánuði frá því hún kemur sem 40 daga gamalt seiði frá móðurstöð Stolt Sea Farm á Spáni en ferðalagið frá norður Spáni og út á Reykjanes tekur um tvo sólarhringa.

- Störfin hér á Reykjanesi líkjast ekki vinnu í venjulegu íslensku frystihúsi?

„Nei, að vinna í eldisstöðinni er mun fjölbreyttara en það og starfsmenn hér þurfa að fá tilfinningu fyrir því að þeir eru að vinna með lifandi fisk í fóðrun og allri umhirðu“.

Ólafur segir að nú þegar stöðin sé að stækka þurfi að fá stöðugleika í starfsmannamál og fá framtíðarstarfsfólk til fyrirtækisins. Það þurfi að ráða til fyrirtækisins fljótlega þannig að það sé klárt og búið að ná tökum á starfseminni þegar stækkun eldisstöðvarinnar sé afstaðin. „Það verður starfsfólkið sem stýrir áframhaldandi verkefnum hér í stöðinni. Við erum 20 í dag og verðum 50 eftir eitt og hálft ár og því þurfum við sterkan kjarna í stöðina“.

– Ertu að leita að fólki með sérstaka menntun?

„Það er alltaf gott að fá fiskeldisfræðinga hér inn og einnig líffræðinga. Þá væri gaman að sjá hérna sjómenn og fiskvinnslufólk, en þetta er allt fólk sem reynst hefur gríðarlega vel“. Þá segir Ólafur að jafnvel fólk úr íslenskum sveitum geti reynst stöðinni vel. Það sé fólk sem þekki vel inn á fóðrun en fiskeldisstöðin sé ekkert frábrugðin því sem gerist í útihúsum til sveita þar sem þarf að fóðra dýr með reglulegum hætti.



Í eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi.



Fullvaxin Senegalflúra tilbúin til slátrunar. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson