Staðsetningin selur sig sjálf hjá Hótel Smára við flugstöðina
„Þetta er svona stígandi aukning í gistingu hjá okkur, um 10-15%. Við erum búin að vera þarna í þrjú ár. Vegna staðsetningarinnar höfum við fengið beinar fyrirspurnir frá ferðaskrifstofum og þær hafa aukist mikið. Við erum hvorki að auglýsa né kynna hótelið mikið, staðsetningin gerir það mikið til sjálf,“ segir Hjalti Sigurðsson, hótelstjóri Hótels Smára, sem staðsett er við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Hlutfall erlendra ferðamanna sem gistir á Hótel Smára yfir sumarið segir Hjalti vera vel yfir 90% en töluvert af Íslendingum nýti sér gistingu þar á veturna. „Fólk utan af landi kemur og gistir nóttina fyrir flug í stað þess að gista í Reykjavík og þurfa að vakna miklu fyrr. Það hrúgast ekki lengur allir til Reykjavíkur því víða er boðið upp á gistingu miklu nær flugstöðinni.“
Hjalti segir að honum finnist hugmyndin um Reykjanes sem þjóðgarð, Jarðvang, mjög spennandi. „Það yrði gaman að sjá verða að veruleika að ná sambandi við ferðaaðila á Suðurnesjum til að skoða nágrennið og þennan væntanlega þjóðgarð og kynna um leið svæðið. Aðstaða og annað á svæðinu þyrftu þá kannski að byggjast meira í kringum það, á þessari leið. Þetta er spennandi svæði og ég held að það sé sókn í því að kynna gestum þetta.“